Gunnar B. Aspar sest í helgan stein
–„Gæti hæglega verið Íslandsmet,“ segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja
Gunnar B. Aspar hefur borið marga titla á tæplega 60 ára starfsferli í fyrirtækinu sem hét Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) þegar Gunnar hóf störf þar, varð síðar Brim og svo ÚA að nýju. Hann byrjaði sem liðléttingur og handflakari, varð síðar aðstoðarverkstjóri, verkstjóri, framleiðslustjóri og sérstakur ráðgjafi. Gunnar hefur aldrei unnið hjá öðrum en „fyrirtækinu við Fiskitanga“, hefur starfað með öllum framkvæmdastjórunum sem þar hafa verið frá upphafi og hefur nokkrum sinnum á síðustu árum sagt eitthvað á þessa leið við nýjan starfsmann: „Ég vann með langafa þínum/langömmu þinni hér í byrjun sjöunda áratugarins.“ Gunnar lét af störfum rétt fyrir jólin og var kvaddur með virktum.
Gunnar hóf störf hjá Útgerðarfélagi Akureyringa sem sumarstarfsmaður í júní árið 1962, rétt að verða 13 ára. Á þeim árum var það almenn regla að krakkar færu kornungir út á vinnumarkaðinn. Stærstu vinnustaðirnir á Akureyri voru Sambandsverksmiðjurnar, ÚA, sláturhús og verslanir KEA og niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar. Algengt var að unga fólkið ynni hjá sama vinnuveitanda sumar eftir sumar og hélt oftast tryggð við það fyrirtæki sem réð það í fyrsta sumarstarfið. Þannig var það með Gunnar og hann starfaði líka hjá ÚA í jólafríum. Hann segir tvo ungmennataxta hafi verið hjá verkalýðsfélögunum á þessum árum: „12 ára krakkar fengu greitt eftir unglingataxta, svo færðist maður upp á svonefndan 14 ára taxta og fékk fullorðinskaup 16 ára gamall.“
Fyrstu tvö sumrin var starf hans m.a. fólgið í því að færa hráefni á milli staða. „Við strákarnir vorum í því að fara með flök í hjólbörum frá flökunarvélunum upp í fiskhúsið, þar sem fiskinum var raðað í stæður og hann saltaður. Við hjálpuðum líka til við að færa aflann úr bátunum inn í vinnsluna, háfa hann upp úr bátunum ýmist á vörubílspalla eða í hjólbörur, þegar trillukarlarnir veiddu loðnu á Pollinum og hún svo fryst fyrir þá í beitu, Þetta var meira og minna allt gert með handafli og heilmikið puð á köflum.“
Gunnar lærði líka snemma að handflaka fisk, bæði bolfisk og flatfisk. „Þegar ég hóf störf var ein bolfiskflökunarvél í ÚA af gerðinni Baader 338. Hún var fyrir þorsk, ýsu og ufsa af smá- og millistærð. Allur annar bolfiskur var handflakaður. Ég segi stundum að mæðurnar á Eyrinni hafi kennt okkur krökkunum handtökin við vinnsluna, því þær voru nokkrar konurnar í ÚA sem kenndu okkur handbrögðin.“ Gunnar nefnir sérstaklega Rut Björnsdóttur í því sambandi. Fiskurinn var vigtaður í hvern og einn í flökuninni og vigtaður aftur að flökun lokinni. „Ein fullorðin kona gekk á milli okkur, fylgdist grannt með vinnubrögðunum og spurði spurninga. Ég hélt að hún væri einhvers konar verkstjóri en hún reyndist vera trúnaðarmaður verkalýðsfélagsins. Ég komst að því með þeim ánægjulega hætti að við strákarnir 14 ára gamlir vorum komnir á fullorðinskaup. Konan hafði þá farið og rætt við Karl Friðriksson verkstjóra og bent honum á að við strákarnir flökuðum á við fullorðnu karlana og ættum að vera metnir eftir því og ættum skilið fullorðinskaup. Okkur þótti þetta mikil upphefð,“ segir Gunnar.
Gunnar lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar vorið 1966 og 120 manna hópur gagnfræðinga hélt í vikulanga útskriftarferð til Noregs, í beinu flugi frá Akureyri. Til að fylla vélarnar tvær fór meistaraflokkur ÍBA í knattspyrnu með og spilaði tvo æfingaleiki við norsk lið þessa viku. Morguninn eftir að heim var komið hóf Gunnar sumarstarfið sitt hjá ÚA. „Það teygðist aðeins á þessu sumarstarfi mínu, og því lauk sem sagt núna rétt fyrir jólin 2020, fimmtíu og níu og hálfu ári eftir að ég réð mig fyrst til starfa hjá ÚA!“
Vinnudagarnir voru langir á fyrstu árum Gunnars hjá ÚA. Unnið var frá 7 á morgnana til 7 á kvöldin og margar vikurnar til 11 á kvöldin tvo eða jafnvel þrjá daga í viku og laugardaga frá 7 til 7. „Þetta þætti þrældómur í dag,“ segir Gunnar.
Á þessum árum var allur fiskur metinn upp úr bátum og skipum og hafði Fiskmat ríkisins það eftirlitsstarf með höndum. Gunnar fór í fiskmatsnám hjá stofnuninni í Reykjavík árið 1968 og fékk að því loknu titilinn löggiltur fiskmatsmaður í ferskfiski. Þeir sem luku þessu námi gerðust annað hvort fiskmatsmenn hjá hinu opinbera eða verkstjórar í fisksvinnslum víða um land. Gunnar snéri aftur norður og varð aðstoðarverkstjóri hjá ÚA ásamt Jóni Hjartarsyni en nýráðinn yfirverkstjóri var Gunnar Lórenzson.
Nýr vinnslusalur var tekinn í notkun hjá ÚA árið 1969 og markaði hann mikil þáttaskil í vinnslunni með nýrri vinnslulínu og aukinni tæknivæðingu á ýmsum sviðum.
Gunnar starfaði sem aðstoðarverkstjóri í vinnslunni í rúm 20 ár. Hann var svo ráðinn framleiðslustjóri ÚA árið 1991 þegar Gunnar Lór. færði sig upp á skrifstofuna. Árið 1997 var Gunnar Aspar svo lánaður til Coldwater í Bandaríkjunum í eitt ár til að leysa aðkallandi vandamál. „Vandinn var sá að sjófrystur fiskur sem keyptur var af íslenskum og færeyskum skipum nýttist frekar illa í vinnslunni ytra. Vandamálið tengdist því hvernig flökunum var pakkað því aflinn var frystur um borð,“ segir Gunnar. Hann gerði ýmsar rannsóknir og tilraunir ytra og fann að lokum ákveðna lausn á vandanum. „Ég fór síðan um borð í hin ýmsu skip, bæði íslensk og færeysk, og leiðbeindi skipverjum varðandi pökkunina og frystinguna. Ég held að að þetta verkefni hafi skilað árangri; í það minnsta þakkaði Magnús Gústafsson, framkvæmdastjóri Coldwater til margra ára, mér vel fyrir og sagði að nýtingin á hráefninu hefði batnað til mikilla muna við þessar breytingar á sjófrystingunni.“
Þótt Gunnar hafi alltaf unnið hjá „fyrirtækinu á Fiskitanga“ starfaði hann ekki alltaf fyrir sama vinnuveitandann. Fyrst var það Útgerðarfélag Akureyringa. Það breyttist í Brim árið 1995 og aðaleigandinn, Eimskip, seldi félagið svo til Guðmundar Kristjánssonar og fjölskyldu árið 2004. Loks varð það Útgerðarfélag Akureyringa að nýju í maí 2011 og hefur frá þeim tíma verið í eigu Samherja.
Innan Brims voru á sínum tíma fjölmörg fyrirtæki, m.a. ÚA, HB á Akranesi, Skagstrendingur, Jökull á Raufarhöfn, loðnuþurrkunarverksmiðja í nágrenni Húsavíkur og frystihúsið á Seyðisfirði. Ýmis rekstur í útlöndum var líka innan vébanda Brims. Í beinu framhaldi af Coldwater-verkefninu tók Gunnar að sér að líta eftir rekstri fiskvinnslu HB í Lettlandi, eftir veikindi rekstrarstjóra. Vinnslan keypti frystan fisk, aðallega karfa, af skipum innan Evrópusambandsins, þíddi hann og vann úr honum afurðir fyrir SH í Þýskalandi. Gunnar var í Lettlandi í um 6 mánuði og þjálfaði eftirmann sinn inn í starfi.
Þegar heim kom starfaði Gunnar að starfsmannamálum í rúmt ár en þá hófst nýr þáttur í starfi hans. Árið 2000 var hann ráðinn vinnslustjóri fiskvinnslunnar á Grenivík og stjórnaði henni í 10 ár. Þá hélt hann að nýju til Akureyrar og fékk nú það verkefni að hafa umsjón með kaupum á hráefni af fiskmörkuðum og flutningi þess í vinnslustöðvar. Við það hefur hann starfað síðan, líka eftir að Samherji keypti Brim og endurvakti ÚA. „Frá því að Covid-veiran kom til sögunnar og þar til ég lét af störfum hef ég þó einungis séð um skráningu og flutninga hráefnisins en ekki kaupin sjálf,“ segir Gunnar.
Gunnar státar af því að hafa starfað með öllum framkvæmdastjórum ÚA og annarra rekstraraðila í „fyrirtækinu við Fiskitanga“ frá því hann hóf störf og til þessa dags. Það er býsna athyglisverð staðreynd.
„Fyrstu framkvæmdastjórarnir voru Gísli Konráðsson og Andrés Pétursson, svo tók Vilhelm Þorsteinsson við af Andrési. Þegar Gísli hætti störfuðu Vilhelm og Gunnar Ragnars hlið við hlið og Gunnar einn undir það síðasta. Þegar Eimskip keypti ÚA kom Guðbrandur Sigurðsson til sögunnar og svo Guðmundur Kristjánsson og Ágúst Torfi Hauksson eftir að breyting varð á eignarhaldinu í Brimi. Þegar Samherji keypti ÚA kom Gestur Geirsson til sögunnar og hann hefur verið framkvæmdastjóri landvinnslunnar, bæði hér og á Dalvík, allar götur síðan.
Hann ber öllum framkvæmdastjórunum vel söguna. „Það var gott að starfa með þeim öllum og ég vill ekki gera upp á milli manna hér. Það sem mér finnst standa upp úr er að frá því að ég byrjaði að vinna og til þessa dags hefur aldrei brugðist að launin séu greidd og að þau séu greidd á réttum tíma. Það held ég að hljóti að teljast einsdæmi. Slíkt er líka ávísun á ákveðið trygglyndi starfsfólksins í garð vinnuveitanda síns,“ segir Gunnar, sem sjálfur er býsna gott dæmi um slíkt trygglyndi, eftir tæp 60 ár í starfi.
Gunnar segir breytingarnar sem orðið hafa á starfsumhverfinu og tæknistiginu nær ólýsanlegar. „Það eina sem er óbreytt á Fiskitanganum er að hráefnið kemur inn um syðri enda hússins og fer út um ytri endann, eins og við segjum gjarnan. Allt annað er gerbreytt. Á árum áður gat liðið allt upp í sólarhringur frá því hráefnið kom inn og þar til afurðirnar voru frystar en nú tekur ferlið innan við klukkustund. Öll erfiðustu störfin heyra líka sögunni til og tæknistigið er mjög hátt. Allt er þetta til mikilla bóta að mínum dómi.“
Hann segir þetta býsna langan – og eflaust óvenjulangan – starfsferil en tíminn hafi verið fljótur að líða. „Mér leiddist aldrei í starfinu og upplifði margar ánægjustundir. Ég kynntist líka mjög mörgu góðu fólki og sá vinskapur hefur haldist. Mér finnst líka gaman að hafa fengið að upplifa það þegar afkomendur af fjórðu kynslóð starfsmanna ÚA mæta til starfa og ég get heilsað þeim og sagt eitthvað á þessa leið. „Sæll og velkominn. Ég starfaði með langafa þínum hér á sjöunda áratug síðustu aldar og hlakka til að vinna með þér.“ Þetta sagði ég við Jónas, barnabarn Ella Kára, og þannig hef ég heilsað mörgum öðrum á síðustu árum. Það finnst mér alltaf jafn gaman.“
Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, hefur starfað með Gunnari frá árinu 2011, þegar Samherji keypti rekstur Brims á Akureyri. Hann segir samstarf þeirra ávallt hafa gengið mjög vel og kveður Gunnar með virktum. „Svo langur starfsferill hjá sama vinnuveitanda gæti hæglega verið Íslandsmet, 60 ár í starfi og ekki nema rétt rúmlega 70 ára karlinn, “ segir hann.
Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir eftirsjá af Gunnari. „Starfsferillinn vitnar um mikið trygglyndi og trúfestu og er auðvitað einstakur í sinni röð. Við óskum Gunna alls hins besta og vonum að hann nýti sem allra best þetta langa frí sem nú er hafið. Hann er eldsprækur og á fullt af áhugamálum þannig að honum eru allir vegir færir,“ segir Kristján.
Gunnar fæddist á Akureyrin 8. júlí 1949 og lætur því að störfum 71 árs að aldri. Hann kynntist konu sinni, Guðrúnu Jóhannesdóttur, einmitt í ÚA á sínum tíma og þau gengu í hjónaband árið 1969. Hann segist aðspurður vita um fjölmörg hjónabönd sem eigi rætur að rekja til fiskvinnslunnar í ÚA. Þau Guðrún eiga tvær dætur og einn son og barnabörnin eru orðin 5 talsins, það elsta 30 ára. Guðrún starfaði lengi sem dómritari hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra en lét af störfum vegna aldurs fyrr á þessu ári. Þau eru því bæði sest í helgan stein, eins og það er gjarnan orðað. En hvað er svo næst á dagskránni hjá Gunnari?
„Ég á fjölmörg áhugamál og kvíði því engu. Við bræðurnir höfum lengi stundað stangveiði í fjallavötnum á Norðurlandi og höldum því ótrauðir áfram. Svo stunda ég gæsaskytterí og geng til rjúpna á hverju ári. Svo er húsið okkar, Lerkilundur 23, sem við byggðum sjálf og fluttum í 1973, endalaust en ánægjulegt verkefni því það kallar á reglubundið viðhald.“
Gunnar nefnir líka flug sem áhugamál en hann er með einkaflugmannspróf sem hann hefur reyndar ekki haldið við með því að fljúga reglulega. Fallhlífarstökk er enn eitt áhugamálið en hann, ásamt fleirum, er handhafi Íslandsmet í hópfallhlífarstökki úr 21.000 feta hæð en það met settu félagarnir 9. september 1985.
Loks segir hann að vélsleðar hafi alltaf verið mikið áhugamál hjá sér. „Ég á flottan sleða í bílskúrnum, sem bíður þess að ég setji hann út. Við erum nokkrir félagar saman í hópi sem nú hefur fengið hið vafasama viðurnefni „Þyrlusveitin“. Það er vegna þess að þyrla Landhelgisgæslunnar hefur tvívegis þurft að sækja 1-2 úr okkar hópi upp á fjöll, í fyrra skiptið vegna slyss en í seinna skiptið vegna veikinda. Í báðum tilvikum fór betur en á horfðist og ég vona að við séum búin með þennan kvóta,“ segir Gunnar að lokum.