Þriggja mánaða uppgjör Samherja hf.:
Samherji hf. var rekinn með 1.056 milljón króna hagnaði fyrstu 3 mánuði ársins 2002 sem er um 928 milljónum króna betri afkoma en á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er 1.238 milljónir króna, eða 32% af rekstrartekjum samanborið við 26% á sama tíma í fyrra. Veltufé frá rekstri nam 1.116 milljónum króna á tímabilinu en var 713 milljónir fyrstu þrjá mánuði ársins 2001.
Heildareignir Samherja hf. í marslok voru bókfærðar á samtals 19,4 milljarða króna. Þar af eru fastafjármunir tæplega 12,5 milljarðar og veltufjármunir tæpir 7 milljarðar. Skuldir félagsins námu rúmlega 11,7 milljörðum króna og eigið fé var 7.673 milljónir. Í mars lok var eiginfjárhlutfall 39,5% og veltufjárhlutfall 1,5.
Eins og fram kom á aðalfundi félagsins þann 11. apríl sl., hefur félagið hætt að verðleiðrétta reikningsskilin. Ef beitt hefði verið sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður hefði hagnaður félagsins verið tæpum 29 milljónum króna hærri auk þess sem eigið fé félagsins væri 81 milljón króna hærra en fram kemur í árshlutareikningnum.
Ánægður með árangurinn
"Þessar niðurstöður í þriggja mánaða uppgjöri félagsins eru ánægjulegar," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. "Það eru aftur á móti blikur á lofti því sú styrking sem orðið hefur á krónunni frá áramótum lækkar framlegð félagsins frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar var í áætlun okkar stuðst við meðalgengi ársins 2001 en ekki gengi um áramót eins og víða tíðkast og þannig er framlegð okkar fyrstu 3 mánuði ársins ekki fjarri áætlunum. Krónan hefur styrkst enn frekar frá marslokum og kemur það til með að hafa áhrif á árið í heild," segir Þorsteinn Már. "En við hjá Samherja horfum björtum augum á framtíðina en allmiklar breytingar standa yfir á skipastól félagsins sem er liður í því að vera enn betur í stakk búnir til að mæta framtíðinni," segir Þorsteinn Már ennfremur.
Sjá meðfylgjandi lykiltölur (6Kb Acrobat Reader)
Fréttatilkynning frá Samherja föstudaginn 24. maí 2002. Allar nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í síma 460 9000.