Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu sex mánuði ársins námu 7.175 milljónum króna, rekstrargjöld voru 5.154 milljónir og hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam því tæpum 2.021 milljónum króna. Afskriftir námu 505 milljónum og fjármagnsliðir voru jákvæðir um 614 milljónir króna, en þar munar mest um gengishagnað upp á 762 milljón króna sem rekja má til styrkingar íslensku krónunar á tímabilinu.
Hagnaður fyrir skatta var 2.130 milljónir króna og hagnaður tímabilsins, að teknu tilliti til skatta 1.755 milljónir króna eins og áður segir. Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins var 1.624 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 2.668 milljónum króna á tímabilinu.
Ekki er beitt verðleiðréttingum í reikningsskilum í samræmi við ákvörðun stjórnar félagsins. Ef beitt hefði verið sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður hefði hagnaður félagsins verið 58 milljónum króna hærri auk þess sem eigið fé félagsins væri 175 milljónum króna hærra en fram kemur í árshlutareikningnum.
Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í júnílok voru bókfærðar á 21 milljarð króna. Þar af eru fastafjármunir tæplega 15,1 milljarður og veltufjármunir tæpir 6 milljarðar.Skuldir félagsins námu rúmlega 13,2 milljörðum króna og eigið fé var 7,8 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var í lok júní 37,1% og veltufjárhlutfall 1,2.
Miklar fjárfestingar voru í eignarhlutum í félögum á tímabilinu en Samherji fjárfesti m.a. í 30,4% eignarhlut í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., 16,3% eignarhlut í Síldarvinnslunni hf. og 12,9% eignarhlut í SR-mjöl hf. auk annara fjárfestinga. Samtals var nettófjárfesting í hlutabréfum 3.073 milljónir króna á tímabilinu. Auk þess var nettófjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum um 870 milljónir.
Afkoman
"Við eru ánægð með þessa niðurstöðu. Framlegð er þrátt fyrir styrkingu krónunnar í takt við áætlanir og má það m.a. rekja til þess að við höfum verið að gera betur á ýmsum sviðum en áætlanir gerðu ráð fyrir" segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. "Hins vegar, miðað við óbreyttar forsendur, verður framlegð seinni hluta ársins lakari en gert var ráð fyrir í upphafi. Við höfum brugðist við þessari gengisþróun og erum að gera ýmsar ráðstafanir í rekstri okkar til að mæta tekjusamdrætti" segir Þorsteinn Már. "Við erum því nokkuð bjartsýn á rekstur félagsins á seinni hluta ársins og áætlanir okkar gera ráð fyrir að hagnaður félagsins á árinu verði um 2,2 milljarðar króna miðað við óbreyttar forsendur" segir Þorsteinn Már ennfremur.
Helstu lykiltölur úr rekstri Samherja hf. má finna hér.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. mánudaginn 19. ágúst 2002. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.