Hagnaður Samherja 1,1 milljarður króna

Sex mánaða uppgjör Samherja hf.:

Samherji hf. var rekinn með 1.098 milljón króna hagnaði á fyrri árshelmingi  2004 en hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 460 milljónir króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu sex mánuði ársins námu 7.236 milljónum króna en rekstrargjöld voru 6.116 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.120 milljónum króna, afskriftir námu 554 milljónum og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 40 milljónum króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 573 milljónum króna, hagnaður fyrir skatta var 1.099 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam 1.098 milljónum króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri nam 747 milljónum króna.

·        Heildareignir samstæðunnar í júnílok voru bókfærðar á 22,5 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 15,4 milljarðar og veltufjármunir rúmir 7,1 milljarður.    Skuldir félagsins námu tæpum 13,4 milljörðum króna, eigið fé var 9 milljarðar og eiginfjárhlutfall 40%. Veltufjárhlutfall var í lok tímabilsins 1,21.

·        Samherji hf á tvö dótturfélög; Onward Fishing Company og Oddeyri ehf og voru nettóáhrif þeirra neikvæð á tímabilinu. Afkoma Oddeyrar var óviðunandi og var rekstrartap þess félags 241 milljón króna. Hins vegar gekk rekstur Onward vel á tímabilinu og skilaði félagið 74 milljón króna hagnaði.

·        Samherji og dótturfélag eiga 14 hlutdeildarfélög og voru áhrif þeirra félaga jákvæð um 573 milljónir króna á tímabilinu en þar af var jákvæð hlutdeild í rekstri Kaldbaks hf. 470 milljónir króna.

·        Samherji seldi á tímabilinu allan eignarhlut sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Hagnaður af sölunni nam 307,8 milljónum króna og er hagnaðurinn færður meðal fjármagnsliða í rekstrarreikningi.

·        Félagið greiddi á tímabilinu 25% arð til hluthafa og var greiddur arður á tímabilinu 397,5 milljónir króna.

·        Veruleg aukning hefur orðið á umsvifum söludeildar félagsins og sala fyrir þriðja aðila jókst um tæpan 1 milljarð króna frá sama tímabili á árinu áður.

·        Á aðalfundi Samherja hf voru áætlanir félagsins fyrir árið 2004 kynntar og var gert ráð fyrir að afkoma félagsins yrði svipuð og afkoma ársins 2003. Rekstrarniðurstaða á fyrri helmingi ársins gefur ekki tilfefni til endurskoðunar á þeirri áætlun. Hins vegar er ljóst er að utanaðkomandi þættir s.s. afurðaverð, gífurleg hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og hugsanlegt sjómannaverkfall geta haft áhrif á afkomu félagsins en stjórnendur félagsins telja að ekki sé tilefni til endurskoðunar á uppgefinni áætlun að svo stöddu.

Uppgjör Samherja 30.júní 2004
Lykiltölur 30.júní 2004