Hagnaður Samherja 580 milljónir króna

Þriggja mánaða uppgjör Samherja hf.:

Samherji hf. var rekinn með 580 milljón króna hagnaði fyrstu 3 mánuði ársins 2003.  Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var tæplega 685 milljónir króna, eða 21% af rekstrartekjum. 

Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu þrjá mánuði ársins námu 3.233 milljónum króna og rekstrargjöld námu 2.548 milljónum og nam því hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða tæpum 685 milljónum króna. Afskriftir á þessu tímabili námu 273 milljónum og fjármagnsliðir voru jákvæðir um 61 milljón króna.
Hagnaður fyrir skatta nam 654 milljónum króna og hagnaður af reglulegri starfsemi eftir skatta var rúmar 580 milljónir króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins var 465 milljónir króna.

Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í marslok voru bókfærðar á samtals 22 milljarða króna. Þar af eru fastafjármunir rúmlega 16,2 milljarðar og veltufjármunir tæpir 5,8 milljarðar. Skuldir félagsins námu 13 milljörðum króna og eigið fé var tæplega 8,8 milljarðar. Í mars lok var eiginfjárhlutfall um 40% og veltufjárhlutfall var 1.

 “Ekki sáttur við afkomuna”
“Afkoma félagsins er undir væntingum okkar en í takt við það sem almennt hefur verið að gerast í sjávarútvegi. Styrking íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á  framlegð sjávarútvegs og ljóst að frekari styrking mun hafa mjög neikvæð áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja sem og annara útflutningsfyrirtækja.” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.

“Þótt þessir mánuðir hafi verið erfiðir, einkum vegna stöðu krónunnar, þá höfum við á að skipa öflugum starfsmönnum og munum halda áfram að leita allra leiða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum gengisþróunarinnar” segir Þorsteinn Már.