Hagnaður Samherja 603 milljónir króna

Fréttatilkynning, 25. ágúst 2003,
Sex mánaða uppgjör Samherja hf.:

Samherji hf. var rekinn með 603 milljón króna hagnaði áfyrstu sex mánuðum ársins 2003. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 1.201 milljónir króna, eða 19,2% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri var 834 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 1.113 milljónum.

Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu sex mánuði ársins námu 6.237 milljónum króna og rekstrargjöld námu 5.036 milljónum. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.201 milljónum króna eða ríflega 19% af rekstrartekjum. Afskriftir námu 546 milljónum og fjármagngjöld umfram fjármagnstekjur námu 57 milljónum króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 87 milljónum króna og hagnaður fyrir skatta nam 685 milljónum króna og hagnaður af reglulegri starfsemi eftir skatta og hlutdeild minnihluta var 603 milljónir króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins var tæpar 834 milljónir króna.

Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í júnílok voru bókfærðar á 22,2 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 16,4 milljarðar og veltufjármunir tæpir 5,8 milljarðar. Skuldir félagsins námu 13,6 milljörðum króna og eigið fé var tæplega 8,5 milljarðar. Í lok júní var eiginfjárhlutfall um 38%. Á tímabilinu greiddi félagið 20% arð og nam fjárhæð arðsins 332 milljónum króna. Veltufjárhlutfall var í lok tímbilsins 0,89.

Eignarhald í fiskeldi
Í lok júní voru eignarhlutir Samherja hf. í dótturfélögunum Íslandslaxi hf., Sæsilfri hf. Silfurstjörnunni hf. og Fiskeldi Eyjafjarðar hf. færðir til eignarhaldsfélagsins Oddeyrar ehf. sem er að fullu í eigu Samherja. Áhrif þessa á rekstur og efnahag Samherja hf. eru engin. Tap Oddeyrar ehf. fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 52 milljónum króna og  tap tímabilsins var tæpar 104 milljónir króna.

Óhagstæð ytri skilyrði
“Styrking krónunnar á tímabilinu hefur haft veruleg áhrif á framlegð félagsins auk þess sem loðnuafli var mun minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði auk neikvæðrar framlegðar af fiskeldi þá erum við þokkalega sátt við framlegð á öðrum ársfjórðungi” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri félagsins.

“Þróun krónunnar á síðustu vikum, góð aflabrögð í norsk-íslensku síldinni ásamt þeim aðgerðum sem við höfum gripið til í rekstri félagsins auka bjartsýni okkar og við teljum að árið í heild verði í samræmi við áætlanir félagsins” segir Þorsteinn Már að lokum.