Hagnaður Samherja 622 milljónir króna

Níu mánaða uppgjör Samherja hf.:

Samherji hf. var rekinn með 622 milljón króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2003. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 1.800 milljónir króna, eða 19,2% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri var 1.286 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 1.110 milljónum.

Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins námu 9.389 milljónum króna og rekstrargjöld voru 7.589 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.800 milljónum króna eða ríflega 19% af rekstrartekjum. Afskriftir námu 841 milljón og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 350 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 92 milljónum króna, hagnaður fyrir skatta var 701 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam 622 milljónum króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri fyrstu níu mánuðum ársins var 1.286 milljónir króna.

Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í septemberlok voru bókfærðar á 22,5 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 16,4 milljarðar og veltufjármunir rúmir 6,1 milljarðar. Skuldir félagsins námu 13,9 milljörðum króna og eigið fé var ríflega 8,5 milljarðar. Í lok september var eiginfjárhlutfall um 38%. Veltufjárhlutfall var í lok tímbilsins 0,99.

Samherji á tvö dótturfélög; Onward Fishing Company og Oddeyri ehf., sem er eignarhaldsfélag og heldur á eignarhlutum samstæðunnar í fiskeldi. Onward Fishing skilaði á tímabilinu 94 milljón króna hagnaði en á sama tíma var tap af Oddeyri ehf. ríflega 138 milljónir króna.

Sáttur við afkomuna
“Ég er sáttur við niðurstöður fjórðungsins og þær aðgerðir sem við höfum verið að gera á rekstri félagsins eru að skila árangri. Við höfum lagt aukna áherslu á vinnslu á ferskum fiski sem lið í því að mæta aukinni samkeppni. Þá hefur rækjuvinnsla félagsins gengið vel á árinu og framleiðsluaukning um 31% frá sama tíma í fyrra” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri félagsins. “Framlegð félagsins á fjórðungnum er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og við erum enn bjartsýn á að árið í heild verði í samræmi við áætlanir okkar” segir Þorsteinn Már.

Eignabreytingar
Nokkrar eignabreytingar hafa orðið hjá félaginu frá septemberlokum. Gengið hefur verið frá samningi um sölu á Þorstein EA til Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. ásamt aflahlutdeildum og mun skipið afhent nýjum eigendum nú í nóvemberlok. Þá keypti félagið 12% eignarhlut í Kaldbaki hf. í októberbyrjun og í síðustu viku gekk félagið frá sölu á öllum hlutabréfum samstæðunnar í Fjord Seafood ASA og nam hagnaður af sölunni um 78 milljónum króna.

“Við keyptum á sínum tíma hlutabréf í útboði hjá Fjord en félagið er eitt af stærstu fiskeldisfyrirtækjum heims. Tilgangur kaupanna var að taka þátt í þeirri endurskipulagningu sem við töldum að myndi eiga sér stað í norsku fiskeldi. Hún hefur aftur á móti gengið hægar en við áttum von á. Hins vegar hafa viðskipti með hlutbréf í Fjord tekið við sér og að okkar mati ekki ástæða fyrir Samherja að halda á bréfunum lengur. Salan mun ekki hafa nein áhrif á þau góðu samskipti sem milli félaganna eru og breytir í engu áformum Samherja í fiskeldi og líklegt að við fjárfestum aftur í eldi í Noregi í náinni framtíð“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson að lokum.