Hagnaður Samherja 638 milljónir króna

Samherji hf. var rekinn með 638 milljón króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi  2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 692 milljónir króna, eða 19,8% af rekstrartekjum. 

Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu þrjá mánuði ársins námu 3.492 milljónum króna og rekstrargjöld voru 2.800 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 692 milljónum króna, afskriftir námu 276 milljónum og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 244 milljónum króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 489 milljónum króna, hagnaður fyrir skatta var 661 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam 638 milljónum króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins var 485 milljónir króna.

·     Heildareignir Samherja hf. í marslok voru bókfærðar á 23,4 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 16,3 milljarðar og veltufjármunir rúmir 7,1 milljarðar. Skuldir félagsins námu 14,5 milljörðum króna, eigið fé ríflega 8,9 milljörðum og eiginfjárhlutfall 38,2%. Veltufjárhlutfall var í lok tímabilsins 1,18.

·     Samherji á tvö dótturfélög; Onward Fishing Company og Oddeyri ehf. Tap varð á rekstri Oddeyrar á tímbilinu en rekstur Onward í jafnvægi. Neikvæð áhrif dótturfélaga voru samtals 52 milljónir króna á tímabilinu.

·     Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 489 milljónir króna á tímabilinu og munar þar mest um áhrif Kaldbaks hf. sem nema um 351 milljón króna.

·     Samherji keypti á tímabilinu eigin bréf að nafnvirði 70,1 milljón króna og nam kaupverð bréfanna um 663 milljónum króna.

·     Á aðalfundi Samherja hf. var áætlun félagsins fyrir árið 2004 kynnt og er afkoma fyrsta ársfjórðungs í takt við þær áætlanir. Ljóst er að utanaðkomandi þættir s.s. verðlækkun á afurðum, olíuverð og gengi munu setja mark sitt á rekstur ársins. Stjórnendur félagsins telja þó ekki ástæðu til að endurskoða uppgefna áætlun.

Uppgjör Samherja 31.mars 2004
Lykiltölur 31.mars 2004