Hagnaður Samherja hf. á árinu 2002 nam 1.879 milljónum króna samanborið við 1.108 milljón króna hagnað árið 2001.
Rekstrartekjur samstæðunnar, sem samanstendur af móðurfélagi og dótturfélögunum Onward Fishing Company Ltd. í Skotlandi, Íslandslaxi hf, Sæsilfri hf, Íslandsbleikju ehf, Silfurstjörnunni hf og Víkurlaxi ehf, voru 13.000 milljónir króna á síðasta ári, en rekstrargjöld 10.003 milljónir króna. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða var því 2.997 milljónir króna. Afskriftir voru 1.244 milljónir króna, þar af nam sérstök niðurfærsla fastafjármuna 202 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 410 milljónir króna. Meðal fjármagnsliða er sérstök gjaldfærsla vegna niðurfærslu á hlutafjáreign í öðrum félögum um 200 milljónir króna.Baldvin Þorsteinsson EA 10. Ljósm. Myndrún |
Árið 2002 einkenndist af miklum eignabreytingum hjá Samherja hf. Fjárfestingar í félögum námu um 3,3 milljörðum króna, þar af 2,5 milljörðum í dóttur- og hlutdeildarfélögum.
Á árinu voru miklar breytingar gerðar á skipastól félagsins. Þrjú skip voru seld; Kambaröst, Hjalteyrin og Baldvin Þorsteinsson, auk þess sem dótturfélag Samherja, Onward Fishing Company, keypti Akureyrina af Samherja hf. Þá voru Seley og Hríseyjan afskrifuð í bókum félagsins. Tvö skip voru keypt á árinu; Baldvin Þorsteinsson (áður Hannover), sem var lengdur og breytt í fjölveiðiskip, og Akureyrin (áður Sléttbakur). Nettófjárfesting vegna breytinga á skipastól félagsins nam 1,4 milljarði króna.
Minni framlegð vegna breytinga á gengi gjaldmiðla
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir rekstrarniðurstöðu ársins nokkru lakari en vænst hafi verið. “Það er ljóst að framlegð í rekstri félagsins er minni en gert var ráð fyrir í þeim áætlunum sem við kynntum á aðalfundi félagsins í fyrra, en þá áætluðum við EBITDA 3400 milljónir króna, en raunin varð 3000 milljónir. Mismuninn má rekja til styrkingar íslensku krónunnar á árinu. Hagnaður ársins er í samræmi við áætlun sem birt var í kjölfar sex mánaða uppgjörs félagsins, að teknu tilliti til niðurfærslu hlutafjár og sérstakrar niðurfærslu fastafjármuna, sem nam samtals 400 milljónum króna,” segir Þorsteinn Már.
Eignarhlutir í fiskeldisfyrirtækjum í eitt félag
Sjókvíaeldi í Mjóafirði |
“Við höfum líka verið að fjárfesta í fiskeldi hér innanlands og snemma á þessu ári keypti Samherji hlut í norska fyrirtækinu Fjord Seafood, sem ég tel að muni m.a. skila okkur mikilsverðri þekkingu til áframhaldandi uppbyggingar í fiskeldinu,” segir Þorsteinn og bætir við að fiskeldisstarfsemi Samherja sé nú í fyrsta skipti tekin inn í samstæðuuppgjör félagsins. Þá segir hann að fyrir liggi sú ákvörðun að færa eignarhluti Samherja í fiskeldisfyrirtækjum í eitt félag.
Hálfur milljarður í opinber gjöld
Launakostnaður Samherja á árinu 2002 var um 3,5 milljarðar króna, stöðugildi voru um átta hundruð. Þorsteinn Már Baldvinsson segir að í ljósi umræðu í þjóðfélaginu um að sjávarútvegurinn greiði óverulegar fjárhæðir til samfélagsins sé ástæða til að geta þess að Samherji greiði á þessu ári ríflega hálfan milljarð króna í opinber gjöld, þar af um 270 milljónir í tekjuskatt, 200 milljónir króna í tryggingagjald og 60 milljónir króna í gjöld af aflaheimildum.
Hátt gengi krónunnar ógnar atvinnulífinu
Þorsteinn Már Baldvinsson telur horfur fyrir þetta ár vera þokkalegar, en þó séu ákveðnar blikur á lofti. “Ég tel að mikil styrking íslensku krónunar sé óeðlileg og hafi veruleg áhrif á afkomu og vaxtarmöguleka íslenskra útflutnings- og ferðaþjónustufyrirtækja. Ég tel slæmt fyrir atvinnulífið í landinu að Seðlabankinn reyni ekki að hafa meiri áhrif á gengi og stöðugleika íslensku krónunar en raun ber vitni síðustu tvö árin,” segir Þorsteinn Már að lokum.
Aðalfundur 3. apríl nk.
Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Nýja bíói á Akureyri 3. apríl nk. og hefst hann kl. 15. Stjórn félagsins gerir tillögu til aðalfundar um að greiddur verði 20% arður til hluthafa vegna ársins 2002.
Helstu lykiltölur úr rekstri Samherja hf. má finna hér.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 6.mars 2003. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.