Níu mánaða uppgjör Samherja hf.:
Samherji hf. var rekinn með 1.675 milljón króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 en hagnaður á sama tíma árið 2003 var 622 milljónir króna.
Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins námu 12.340 milljónum króna en rekstrargjöld voru 10.528 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.812 milljónum króna, afskriftir námu 949 milljónum og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 137 milljónum króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 1.006 milljónum króna, hagnaður fyrir skatta var 1.731 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam tæpum 1.675 milljónum króna eins og áður segir. Veltufé frá rekstri nam 1.077 milljónum króna.
Allnokkrar breytingar hafa orðið á samstæðu félagsins frá síðasta uppgjöri og átti Samherji fimm dótturfélög í lok september. Á þriðja ársfjórðungi eignaðist samstæðan allt hlutafé í CR Cuxhavener Reederei GmbH í Þýskalandi (DFFU). Við kaupin á CR eignaðist samstæðan jafnframt meirihluta í Seagold Ltd. í Bretlandi. Auk þess keypti dótturfélagið Onward Fishing Company Ltd. í Bretlandi 50% eignarhlut í UK Fisheries Ltd. sem keypti dótturfélagið Boyd Line Management Ltd. Þá er dótturfélagið Snæfugl ehf. nú í fyrsta sinn inni í samstæðureikningi félagsins en var áður fært á meðal hlutdeildarfélaga. Heildareignir samstæðunnar í septemberlok voru bókfærðar á 28,6 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 20,8 milljarðar og veltufjármunir rúmir 7,7 milljarðar. Skuldir félagsins námu tæpum 17,4 milljörðum króna, eigið fé var 10,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall 36,5%. Veltufjárhlutfall var 0,96 í lok tímabilsins.
Nettóáhrif dótturfélaga á rekstur Samherja voru neikvæð um 226 milljónir króna og munar þar mestu um áhrif Oddeyrar sem voru neikvæð um 399 milljónir króna. CR Chuxhavener Reederei skilaði jákvæðri afkomu upp á 130 milljónir, Onward 17 milljónum, Seagold 8 milljónum og Snæfugl 18 milljónum króna.
Afkoma Oddeyrar er óviðunandi á árinu. Ytri skilyrði s.s. lágt afurðaverð og gengi gjaldmiðla hafa verið félaginu óhagstæð og haft veruleg áhrif á rekstur fiskeldisfyrirtækja félagsins. Þá kom upp sjúkdómur á tímbilinu í eldisstöð Silfurstjörnunnar sem hafði allnokkur áhrif á afkomuna. Að undanförnu hefur verið unnið að endurskipulagningu á rekstri fiskeldis og má vænta þess að árangur þeirrar vinnu skili sér á næstu misserum. Hins vegar er ljóst að ytri skilyrði þurfa að breytast nokkuð til að reksturinn verði viðunandi.
Samherji og dótturfélag áttu 9 hlutdeildarfélög í lok september og voru áhrif þeirra félaga jákvæð um 1.005 milljónir króna á tímabilinu en þar af var jákvæð hlutdeild í rekstri Kaldbaks hf. 904 milljónir króna. Í lok september var gengið frá samningi um sölu á öllum eignarhlut félagsins í Kaldbaki hf. Samningurinn kom til framkvæmda í október og mun hagnaður af sölu eignarhlutans um 850 milljónir færður á fjórða ársfjórðungi.
Lykiltölur (Acrobat Reader, 6Kb)
Árshlutareikningur (Acrobat Reader, 241Kb)
Fréttatilkynning frá Samherja fimmtudaginn 25. nóvember 2004. Allar nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í síma 460 9000