Hagnaður Samherja tæpir 3 milljarðar króna

Samkvæmt ársreikningi Samherja hf. fyrir árið 2004, sem stjórn félagsins samþykkti á stjórnarfundi sínum í dag, nam hagnaður Samherja hf. 2.914 milljónum króna samanborið við 1.067 milljóna króna hagnað árið áður...

Samkvæmt ársreikningi Samherja hf. fyrir árið 2004, sem stjórn félagsins samþykkti á stjórnarfundi sínum í dag, nam hagnaður Samherja hf. 2.914 milljónum króna samanborið við 1.067 milljóna króna hagnað árið áður.

  • Ársreikningur Samherja hf hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess Oddeyrar ehf., Snæfugls ehf., CR Cuxhavener Reederei GmbH í Þýskalandi, Onward Fishing Company Ltd. í Bretlandi Seagold Ltd. í Bretlandi og Fjárfestingafélagsins Krossaness hf. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við lög um ársreikninga og reglugerð um innihald ársreikninga og samstæðureikninga og er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og ársreikningur félagsins árið áður.
  • Rekstrartekjur samstæðunnar námu 16.760 milljónum króna og jukust um ríflega 35% frá árinu áður. Rekstargjöld ársins voru 14.494 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2.266 milljónir króna. Afskriftir voru 1.380 milljónir króna en þar af nam sérstök niðurfærsla vegna skipa 124 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1.140 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam kr. 1.212 milljónum, hagnaður fyrir tekjuskatt var 3.238 milljónir króna og hagnaður eftir tekjuskatt og hlutdeild minnihluta nam 2.914 milljónum króna eins og áður segir.
  • Heildareignir samstæðunnar voru í árslok 26,8 milljarðar króna en þar af voru fastafjármunir 20,1 milljarður. Skuldir félagsins námu 15 milljörðum króna, eigið fé var 11,6 milljarðar og eiginfjárhlutfall 43%. Nettóskuldir námu 8.2 milljörðum króna í árslok. Veltufjárhlutfall var í árslok 1,12
  • Allnokkrar breytingar hafa orðið á samstæðu félagsins frá árinu 2003 og átti Samherji hf. sex dótturfélög í árslok. Á árinu 2004 eignaðist félagið allt hlutafé í CR Cuxhavener Reederei GmbH í Þýskalandi. Við kaupin á CR eignaðist samstæðan jafnframt meirihluta í Seagold Ltd. í Bretlandi. Þá eru dótturfélögin Snæfugl ehf. og Fjárfestingafélagið Krossanes hf. færð í samstæðureikning félagsins en voru á árinu 2003 færð meðal hlutdeildarfélaga.
  • Nettóáhrif dótturfélaga á rekstur Samherja voru neikvæð um 308 milljónir króna á árinu og munar þar mestu um áhrif Oddeyrar ehf. sem voru neikvæð um 496 milljónir króna. CR Cuxhavener Reederei GmbH skilaði jákvæðri afkomu upp á 121 milljónir króna, Onward Fishing Company Ltd. 2 milljónum króna, Seagold Ltd. 7 milljónum króna, Snæfugl ehf. 58 milljónum króna en áhrif Fjárfestingafélagsins Krossaness hf. voru óveruleg.

Rekstur móðurfélags gekk vel á árinu þrátt fyrir erfið ytri skilyrði. Rekstrartekjur jukust um 3,5 milljarða króna sem rekja má til verulegrar aukningar sem orðið hefur á umsvifum söludeildar en sölutekjur deildarinnar jukust um tæpa 4 milljarða króna á milli ára. Hins vegar drógust tekjur landvinnslu saman um 676 milljónir króna, sem að stærstum hluta má rekja til samdráttar í vinnslu uppsjávarafurða í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík en loðnuvertíðin brást að mestu. Útgerð félagsins gekk vel og þá sérstaklega rekstur fjölveiðiskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA-11 en aflaverðmæti skipsins var ríflega 1,6 milljarður króna. EBITDA sem hlutfall af rekstartekjum lækkaði milli ára úr 19,6% í 13,5% en ef horft er framhjá vörusölu þá jókst þetta hlutfall úr 20,8% í 21,3%

  • Á árinu seldi félagið eignarhluti sína í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og Kaldbaki hf. og er söluhagnaður vegna þessa, samtals að fjárhæð 1.337 milljónir króna, færður meðal fjármagnsliða. Þá hefur verið gjaldfærð niðurfærsla á ýmsum eignarhlutum samtals að fjárhæð 116 milljónir króna.
  • Samherji hf. og dótturfélag eiga 9 hlutdeildarfélög og voru áhrif þeirra félaga jákvæð um 1.211 milljónir króna á árinu en þar af var jákvæð hlutdeild í rekstri Kaldbaks hf. 904 milljónir króna og jákvæð hlutdeild í rekstri Síldarvinnslunnar hf. samtals 274 milljónir króna.
  • Meðal afskrifta er færð sérstök niðurfærsla á Margréti EA og Oddeyrinni EA, samtals að fjárhæð 124 milljónir króna, en félagið hefur hætt útgerð þessara skipa.
  • Rekstrarhorfur í sjávarútvegi eru ekki góðar um þessar mundir. Hátt gengi íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þá sérstaklega á afkomu landvinnslu. Allar líkur benda til þess að gengi krónunnar haldist áfram sterkt og ekki er líklegt að hækkun verði á afurðaverði næstu misserin. Félagið hefur þegar gripið til ýmissa ráðstafana vegna þessa. Í byrjun febrúar sl. varð bruni í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík, sem veruleg áhrif hefur á afkomu félagsins á fyrstu mánuðum ársins 2005. Félagið var tryggt fyrir tjóninu bæði með bruna- og rekstrarstöðvunartryggingu. Rekstur fjölveiðiskipanna Baldvins Þorsteinssonar EA og Vilhelms Þorsteinssonar EA hefur gengið vel fyrstu mánuði ársins og var aflaverðmæti þeir samtals um 500 milljónir króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Áætlun fyrir árið 2005 verður lögð fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður þann 7. apríl n.k.
  • Samherji hf. mun birta reikningsskil sín að fullu í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla frá og með árinu 2005. Félagið hefur hafið undirbúning að þessum breytingum. Ekki liggur fyrir hversu mikil áhrif þessar breytingar kunna að hafa en félagið mun senda frá sér fréttatilkynningu varðandi þetta mál fyrir birtingu þriggja mánaða uppgjörs félagsins.

Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri fimmtudaginn 7. apríl nk. og hefst hann kl. 15:30. Stjórn félagsins gerir tillögu til aðalfundar um að greiddur verði 30% arður til hluthafa vegna ársins 2004 en vísar að öðru leyti til ársreiknings um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á bókfærðu eigin fé félagsins á árinu. Rétt til arðs eiga þeir sem eru hluthafar í lok aðalfundardags og verður arður greiddur út 12. maí nk.

Fjárhagsdagatal 2005

    • Birting ársreiknings 2004 07.03.2005
    • Aðalfundur, í Ketilhúsinu á Akureyri kl. 15:30 07.04.2005
    • Arðgreiðsla 12.05.2005
    • Milliuppgjör 1. ársfjórðungs 2005 Vika 21 2005
    • Milliuppgjör 2. ársfjórðungs 2005 Vika 34 2005
    • Milliuppgjör 3. ársfjórðungs 2005 Vika 47 2005
    • Birting ársreiknings 2005 Vika 10 2006
Ársreikning og lykiltölur er að finna á síðunni Ársskýrslur

Fréttatilkynning frá Samherja hf. mánudaginn 7. mars 2005. Allar nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri í síma 460 9000.