Hannover heldur til rækjuveiða í grænlenskri lögsögu

Hannover, frystitogari þýska útgerðarfyrirtækisins DFFU, dótturfélags Samherja hf., kom til hafnar í Reykjavík í dag eftir umfangsmikla viðgerð í Noregi. Frá Reykjavík mun skipið halda til rækjuveiða í grænlenskri lögsögu og stunda þær veiðar til áramóta.
Sem kunnugt er kom upp eldur í Hannover þann 14. maí sl. þar sem skipið var að veiðum á Grænlandshafi. Skipið var dregið til hafnar í Reykjavík og eftir að tjónið hafði verið metið var skipið dregið til Noregs til viðgerða. Þangað kom skipið þann 31. maí sl.


Miklar skemmdir en viðgerð gekk vonum framar

Hannover var mikið skemmt, bæði af eldinum sjálfum en einnig af sóti og reyk sem fór um allt skipið. Meðal annars gereyðilagðist stjórnherbergi skipsins. Skipið var tryggt fyrir því eignatjóni sem varð. Tjón sem fellur á DFFU og þannig á Samherja hf. er hins vegar vegna þess aflataps sem varð á meðan á viðgerð stóð en tryggingar fyrir slíku tjóni tíðkast ekki í útgerð. Þetta tjón nemur um 30 milljónum króna, eins og fram hefur komið.  Viðgerðin í Noregi gekk vonum framar og tók einungis rúmar 5 vikur.

Mun stunda rækjuveiðar í grænlenskri lögsögu
Smellið til að fá stærri mynd
Hannover er hið glæsilegasta
eftir viðgerðina í Noregi. Myndin
er tekin fyrir skömmu er skipið
var á siglingu við Noreg.
**

Hannover heldur síðar í vikunni til rækjuveiða í grænlenskri lögsögu, í samvinnu við fyrirtækið Royal Greenland en grænlensk stjórnvöld leggja til veiðiheimildirnar. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og nemur styrkurinn um 270.000 íslenskum krónum á hvern úthaldsdag. Hannover mun stunda þessar veiðar til áramóta og landa afla sínum á Grænlandi.
Að sögn Finnboga Baldvinssonar, framkvæmdastjóra DFFU, hafa rækjuveiðar við Grænland gengið mjög vel að undanförnu. "Við bindum miklar vonir við þessar veiðar og teljum að hér sé um mjög áhugavert verkefni að ræða fyrir Hannover og DFFU," segir hann.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 11. júlí 2000
Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.