Skipaflotinn fór annað hvort í land eða leitaði í var vegna óveðursins í byrjun vikunnar, auk þess sem mikil ölduhæð var á miðunum. Harðbakur EA, togari Útgerðarfélags Akureyringa, hefur legið við bryggju í Grundarfirði síðan síðdegis á sunnudag. Guðmundur Ingvar Guðmundsson skipstjóri segir að ekkert vit hafi verið í öðru en að halda til hafnar, öryggið sé alltaf í fyrirrúmi.
Fátt annað í stöðunni
„Veðurspáin var mjög slæm og hún gekk að mestu eftir, þannig að það var skynsamlegt að fara í land og bíða þess að veðrið skáni. Auk þess hefur ölduhæðin á miðunum verið mjög mikil, þannig að það var fátt annað í stöðunni en að gera hlé á veiðum. Þessi árstími er alltaf svolítið erfiður og við verðum að taka mið af aðstæðum og sigldum sem sagt til Grundarfjarðar til þess að bíða af okkur ótíðina.“
Síður en svo aðgerðarlausir
„Já, það eru nokkuð mörg skip hérna við bryggju, fimm til sex talsins. Við erum ellefu í áhöfn og tíminn hefur farið í ýmsar lagfæringar og viðhald. Það þarf að huga að veiðarfærunum, splæsa upp á vírana og svo framvegis. Sömuleiðis fara yfir björgunarbúnaðinn og þrífa, þannig að við erum síður en svo aðgerðarlausir. Svo höfum við sett upp bíókvöld og fleira skemmtilegt, það fer sem sagt bara ljómandi vel um okkur.“
Sushi veisla
Nei, það er ekki ónýtt að hafa Kristinn Frímann Jakobsson kokk um borð, hann sér til þess að við verðum ekki svangir. Í gær var til dæmis slegið upp sushi veislu af sverustu gerð, þannig að við erum vel haldnir. Miðað við veður- og ölduspá sýnist mér að hægt verði að leysa landfestar seint í kvöld eða fyrramálið og þar með lyftast brýrnar á okkur strákunum á nýjan leik. Auðvitað viljum við helst vera á miðunum í góðu fiskeríi, það er bara þannig. Ef skipin fiska lítið bitnar það fljótlega á landvinnslunni, laununum og svo framvegis. Þetta hangir sem sagt allt saman,“ segir Guðmundur Ingvar skipstjóri á Harðbak EA.