Hátæknibúnaður sem prentar út í plasti og málmi tekinn í notkun hjá N.Hansen á Akureyri

Arnór Ingi Hansen við hönnun þurrkhausa fyrir öryggishjálma/myndir samherji.is
Arnór Ingi Hansen við hönnun þurrkhausa fyrir öryggishjálma/myndir samherji.is

Samherji er umsvifamikið fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu í kaupum á þjónustu, hvort sem um er að ræða fyrir landvinnslur félagsins eða togaraflotann. Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segir Eyjafjarðarsvæðið vel þekkt sem þekkingarsetur í haftengdri starfsemi og Samherji leggi áherslu á samvinnu um þróun og hönnun sértækra tæknilausna.

Samherji er helsti viðskiptavinur vélaverkstæðis N.Hansen á Akureyri, sem sérhæfir sig í nýsmíði, viðhaldi og viðgerðum fyrir sjávarútveginn. N. Hansen hefur nýverið fjárfest í hátæknibúnaði, þrívíddarprenturum og tengdum hugbúnaði, til að prenta hluti úr plasti eða málmi.


Möguleikarnir nánast endalausir með þrívíddarprentun

„Hugmyndin kviknaði fyrir tveimur árum síðan og í kjölfarið var hafist handa við að kanna hvers konar búnaður kæmi til greina með það að markmiði að koma til móts við þarfir okkar viðskiptavina um allt land. Þróunin í þrívíddarprentun er mjög hröð og við ákváðum snemma að fjárfesta í góðum og vönduðum búnaði, sem gæti framleitt okkar eigin hönnun og svo auðvitað prentað íhluti samkvæmt óskum. Sjávarútvegurinn þarf skjóta og örugga þjónustu, oft er staðan sú að varahlutir eru einfaldlega ekki til þegar á reynir og þá getur þessi tækni hæglega komið að góðum notum. Fyrir mig, sem hef verið nokkuð lengi í faginu, er í raun magnað að sjá hvað hægt er að gera með þessum búnaði, möguleikarnir eru nánast endalausir. Auk þess fer minna efni til spillis miðað við aðrar framleiðsluaðferðir. Þetta er í raun bylting,“ segir Ingi Hansen framkvæmdastjóri N. Hansen.


Nauðsynlegt að leggja áherslu á nýsköpunar- og þróunarvinnu

„Fiskvinnsluhúsin á Akureyri og Dalvík eru mjög tæknivædd og sömu sögu er að segja um fiskiskipin. Vél- og rafeindabúnaður er sérhæfður og getur verið erfitt að fá varahluti með skömmum fyrirvara. Þess vegna getur skipt sköpum að hafa gott aðgengi að sérhæfðri þjónustu og vélaverkstæði N. Hansen er gott dæmi um fyrirtæki með hátt þjónustustig.

Ef við Íslendingar ætlum að vera áfram í fremstu röð er nauðsynlegt að leggja áherslu á nýsköpunar- og þróunarvinnu. Mér er óhætt að fullyrða að hjá N. Hansen ríkir skapandi andrúmsloft frumkvöðla sem við Íslendingar erum þekktir fyrir um víða veröld þegar kemur að tæknilausnum fyrir sjávarútveg og tengdar greinar,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.


Markmiðið er að veita góða þjónustu


Arnór Ingi Hansen hjá N. Hansen segir að búnaðurinn hafi þegar vakið athygli, enda sárafáir málmprentarar í notkun hérlendis.

„Beiðnir um þjónustu bárust áður en við vorum búin að koma öllum búnaðinum fyrir, þannig að þetta fer vel af stað. Nýlegt dæmi um verkefni er að lítið plasthús ofan á vökvaloka brotnaði, ekki var hægt að útvega nýtt hús og því var lokinn óstarfhæfur. Með þrívíddartækni var hægt að teikna sambærilegan hlut og prenta á tiltölulega skömmum tíma, þannig losnaði eigandinn við að kaupa að óþörfu nýjan búnað sem var að öðru leyti í góðu lagi. Við höfum meðal annars prentað hlífar utan um fjarstýringar í lestum skipa, kassa utan um upplýsingaskjái vélgæslukerfa og hannað þurrkhausa fyrir öryggishjálma sjómanna. Við erum í samstarfi við fyrirtækið 3D Verk ehf., sem sérhæfir sig í innflutningi og þjónustu við þrívíddarprentun. Í slíku samstarfi erum við enn hæfari til að veita góða þjónustu, sem er auðvitað markmiðið með þessu öllu,“ segir Arnór Ingi Hansen.


Gamla góða handverkið lifir áfram


„Gamla góða handverkið verður auðvitað áfram við lýði, þessi tækni er viðbót og stuðningur við núverandi starfsemi. Búnaðurinn er töluverð fjárfesting fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar en við erum að horfa til framtíðar. Markaðurinn er kröfuharður og við leggjum metnað okkar í að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til okkar, það er bara svo einfalt,“ segir Ingi Hansen framkvæmdastjóri N. Hansen.

Nokkrar myndir af íhlutum sem prentaðir hafa verið hjá N.Hansen. Einnig mynd af hluta búnaðarins.