Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri, fagnar í dag 68 ára afmæli. Arngrímur starfaði hjá Samherja frá því núverandi eigendur keyptu fyrirtækið árið 1983 þangað til í byrjun þessa árs en þá settist hann í helgan stein eftir rúmlega hálfa öld á sjó sem háseti, stýrimaður og skipstjóri. Á tæplega 37 ára starfsferli hjá Samherja fylgdi hann fyrirtækinu í gegnum miklar breytingar og vöxt.
Arngrímur er fæddur og uppalinn á Akureyri. Sem ungur drengur fór hann á sjóinn með föður sínum sem var vélstjóri á Ólafi Magnússyni. „Lífið snerist um sjóinn. Pabbi var á sjó og mamma var alltaf í síld og maður var alltaf að þvælast í kringum þetta en hugurinn stefndi ekkert endilega í þessa átt þegar ég var ungur. Ég ætlaði kannski að fara einhverja aðra leið en eitt leiddi svo af öðru. Vinir og kunningjar voru líka tengdir sjónum og þetta bara æxlaðist svona. Ég fékk góð pláss og það hafði sitt að segja,“ segir Arngrímur í viðtali í tilefni af starfslokum sínum hjá Samherja.
Arngrímur hóf feril sinn sem sjómaður 17 ára gamall á síðutogaranum Kaldbaki sem var gerður út af Útgerðarfélagi Akureyringa. Þetta var um jólin 1969 og í þessum sama túr var annar 17 ára piltur og gamall skólabróðir Arngríms, Þorsteinn Már Baldvinsson, sem varð seinna forstjóri Samherja. „Þetta var jólatúr og Þorsteinn Már var þá í Menntaskólanum á Akureyri. Hann fór í þennan eina túr en ég hélt síðan áfram og var á Kaldbaki fram á haustið 1970 þegar ég fór í skóla. Svo var ég aftur á Kaldbaki sumarið 1971 og um haustið fór ég á Jón Kjartansson frá Eskifirði. Baldvin, faðir Þorsteins Más, var að fara þarna austur sem skipstjóri og við fórum með honum, ég og annar vinur minn, Guðmundur Sigurðsson. Og það var nú að undirlagi Þorsteins Más,“ segir Arngrímur þegar hann rifjar þennan tíma upp núna.
Arngrímur segir það hafa verið lærdómsríkt að byrja ungur á síðutogara þótt launin hafi ekki verið góð. „Margir af þessum vönu mönnum fóru suður á vertíð. Það var skortur á sjómönnum í byrjun áttunda áratugarins og við vorum margir ungir og óreyndir. En maður lærði helling því maður var tiltölulega fljótt settur í fjölbreytt störf um borð.“ Arngrímur var á Jóni Kjartanssyni fram til vorsins 1972 en þá fylgdi hann Baldvini Þorsteinssyni yfir á Loft Baldvinsson sem gerður var út frá Dalvík. Arngrímur var háseti á Lofti Baldvinssyni meðfram námi í stýrimannaskólanum og svo stýrimaður á skipinu að lokinni útskrift árið 1975.
Með þeim fyrstu sem voru ráðnir um borð í Akureyrina
Arngrímur færði sig yfir á Súluna árið 1978 og var stýrimaður þar til ársins 1982. Hann var svo stýrimaður á Stakfellinu en á þeim tíma var skipið tiltölulega nýsmíðað. Arngrímur var á Stakfellinu um rúmlega eins árs skeið þangað til hann réð sig til Samherja en hann var með þeim fyrstu sem voru formlega ráðnir um borð í Akureyrina haustið 1983.
Kaupin á Samherja og Guðsteini GK og umbreyting þess skips í Akureyrina markar upphaf sögu Samherja undir stjórn núverandi eigenda fyrirtækisins. Það var ekki erfið ákvörðun fyrir Arngrím að ráða sig til Samherja því hann gjörþekkti eigendur fyrirtækisins. Hann var eins og áður segir gamall skólabróðir og skipsfélagi Þorsteins Más Baldvinssonar og góður vinur Þorsteins Vilhelmssonar. Hann hafði fylgst með fyrirætlunum þeirra og aðdraganda kaupanna á Guðsteini GK. Arngrímur rifjaði upp þetta tímabil í viðtali við Atla Hafþórsson hinn 6. janúar 2012 en viðtalið var tekið fyrir ritun sögu Samherja í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins árið 2013. „Ég var úti á sjó en við Steini (Þorsteinn Vilhelmsson) vorum í miklu sambandi alltaf og ég man að ég heyrði í honum á meðan hann var að sigla skipinu norður. Ég man svo að ég fór niður á bryggju á Akureyri þegar ég kom í land. Guðsteinn lá þá niðri á Togarabryggju. Það var örugglega bara á öðrum eða þriðja degi eftir að þeir komu norður og voru þá byrjaðir að rústa honum. Mig minnir að ég hafi sótt um pláss strax þá. Ég man svo alltaf eftir því þegar ég sagði upp þarna hjá Óla Grenó á Stakfellinu að hann var ekki fúll. Hann sagði: „Þetta eru mennirnir sem eiga að gera út!“ Þá vildi hann meina að skipstjórinn, vélstjórinn og verkfræðingurinn væri eitthvað sem gengi upp. Ég man alltaf eftir þessu, hann var mjög jákvæður að ég væri að fara þarna og leist mjög vel á þetta, hafði trú á þeim,“ sagði Arngrímur í viðtali við Atla á þeim tíma.
Arngrímur segir nú að þegar hann líti um öxl átti hann sig á hversu mikið ævintýri það hafi verið að taka þátt í svona frumkvöðlastarfi. „Það er eitt af því sem maður er svo þakklátur fyrir. Að hafa fengið að vera með í þessu. Ég er búinn að vinna hjá og með þessum mönnum í tæp 37 ár og það var frábært að hafa fengið tekið þátt í þessari uppbyggingu.“
Arngrímur var á Akureyrinni frá 1983 til 1992. Hann fylgdi svo Þorsteini Vilhelmssyni skipstjóra yfir á Baldvin Þorsteinsson EA árið 1992. „Þorsteinn hætti síðan vorið 1994 og þá tók ég við sem skipstjóri á Baldvini en ég gegndi þeirri stöðu til 1996 þegar ég tók við Þorsteini EA og fór í þennan uppsjávarveiðipakka,“ segir Arngrímur. Hann stýrði Þorsteini EA til aldamóta með stuttri viðkomu á Garðari EA árið 1998 en um var að ræða uppsjávarskip sem keypt var frá Noregi. Arngrímur segir að kaupin á Garðari EA hafi í raun markað upphafið á uppsjávarfrystingu til sjós í íslenskum sjávarútvegi.
Arngrímur var skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA frá 2000 til 2006, Margréti EA frá 2006 2010 og Kristinu EA frá 2010 til 2017. „Ég var skipstjóri á Kristinu EA alveg þangað til skipið var selt haustið 2017. Þá fór ég á Sögu og síðan tók ég við Heinaste.“
Nýtti dvölina í Namibíu vel
Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum festist Arngrímur í Namibíu um síðustu jól eftir að namibísk stjórnvöld kyrrsettu togarann Heinaste og haldlögðu vegabréf Arngríms. Það mál leystist þó farsællega á endanum. Arngrímur segist hafa notað dvölina í Namibíu á uppbyggilegan hátt en hann notaði tækifærið og ferðaðist um landið ásamt Jóhönnu Magnúsdóttur, eiginkonu sinni, sem flaug út til hans. „Við fórum í langt ferðalag. Við settumst upp í bíl og keyrðum um Namibíu. Þetta land kom mér á óvart. Ég hélt nú ekki að ég gæti heillast af sandi en þetta var alveg ótrúlegt. Ég hafði fyrst einhverjar efasemdir en það eina sem maður þurfti að aðlagast var að þarna er vinstriumferð og maður náði nú fljótt tökum á henni. Þetta er eitt öruggasta landið í Afríku fyrir ferðamenn. Maður hefði kannski viljað vera þarna á öðrum forsendum en maður lét það ekkert trufla sig. Við gerðum bara gott úr þessu.“
Arngrímur segist hafa lært ýmislegt eftir dvölina í Namibíu. „Það er eitt sem ég rak mig á en það var að sú mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum var oft mjög villandi eða beinlínis röng. Fólk var alltaf að hafa samband og ég þurfti alltaf að vera að útskýra að ég hefði það bara fínt. Þetta var í rauninni bara eins og ég hefði flutt til Namibíu í smá tíma. Ég er ánægður með að hafa haldið haus allan tímann og ég var alltaf bjartsýnn. Það var í raun ekki fyrr en ég kom heim til Íslands sem ég fór eitthvað að velta þessu fyrir mér í alvöru.“ Arngrímur segir að málið sjálft hafi verið tóm steypa enda hafi Heinaste aldrei veitt innan lokaðs svæðis. „Það var bara teiknuð ný lína í lögsögu Namibíu.“
Fengið mörg frábær tækifæri hjá Samherja
Arngrímur segir að margt standi upp úr eftir hálfa öld á sjó en hann segist vera afar heppinn með þau tækifæri sem hann hafi fengið og það traust sem honum hafi verið sýnt. „Eftir að Samherji hóf rekstur hefur maður fengið mörg frábær tækifæri sem maður hefði annars ekki fengið annars staðar. Það hefur verið fjárfest í nýjum skipum sem manni hefur verið treyst fyrir, ráðist hefur verið í alls kyns nýjungar og ný tækni verið innleidd. Fyrst vorum við í botnfiskveiðum og frystingu, síðan fórum við yfir í uppsjávarveiðina þar sem fyrst var farið með aflann í vinnslu í landi en þróaðist síðan yfir í vinnslu á sjó. Síðan fórum við aftur í að veiða fyrir frystihús í landi og þá sigldum við á fjarlæg mið eins og ég gerði þegar ég stýrði Kristinu. Þetta starf hefur því verið ótrúlega fjölbreytt þótt þetta snúist í grunninn allt um það sama, að eltast við fisk.“
Arngrímur nefnir sérstaklega togarann Vilhelm Þorsteinsson EA sem ákveðinn topp á ferlinum þegar það skip var nýsmíði. „Þegar við komum með hann nýjan heim til að stunda uppsjávarfrystingu um síðustu aldamót þá var það stórt og mikið dæmi. Þetta var mikil breyting því menn höfðu ekki verið mikið í þessu, fyrir utan kaupin á Garðari 1998.“
Eins og áður segir hafa Arngrímur og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, þekkst frá því þeir voru ungir. Þorsteinn Már segir að það hafi verið mikil gæfa fyrir Samherja að fá Arngrím til starfa á Akureyrina 1983 enda hafi hann alla tíð verið afladrjúgur og sýnt einstakan dugnað. Það sem skipti þó mestu máli séu mannkostir Arngríms.
„Arngrímur er frábær drengur og mjög góður vinur. Hvað samstarfs- og stjórnunarhæfileika varðar er leitun að betri manni. Hann hefur fylgt okkur í uppbyggingu Samherja frá upphafi, í gegn um súrt og sætt, og aldrei haggast, sama á hverju hefur gengið.“
Þorsteinn Már bendir á að Arngrími hafi verið falin mörg og krefjandi verkefni á 37 ára starfsferli hans hjá Samherja, eins og fram hefur komið hér að framan. „Hann tók nýjum áskorunum með jafnaðargeði en tókst á við þær allar af þeim eldmóði sem hefur einkennt líf hans og starf,“ segir Þorsteinn Már.
„Þegar við vorum á sama tíma í Stýrimannaskólanum í Reykjavík var ég heimagangur hjá Arngrími og Jóhönnu, konu hans. Samgangurinn hefur því verið mikill og góður og nær yfir langt tímabil. Ég er mjög þakklátur þeim hjónum fyrir samfylgdina og óska þeim alls hins besta,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.
Dauðsfall markaði djúp spor tilveruna
Arngrímur hefur gengið í gegnum margþætta reynslu og upplifað alls kyns tilfinningar á sjó á sínum starfsferli. „Ég missti mann árið 1996 og það er ákaflega sárt. Það fylgir þér alla tíð og markar djúp spor í tilveruna. Ég hugsa reglulega um þetta ennþá. Eftir að svona atburðir verða þá breytist maður á þann veg að maður verður alltaf hræddur um áhöfnina og velferð hennar. Þegar koma upp aðstæður þar sem hætta skapast, þá kemur upp þessi líðan. Svona hlutir fylgja manni alla tíð.“
Arngrímur hefur upplifað miklar tæknibreytingar í sjávarútvegi eftir hálfa öld á sjó. Hann hefur, eðli málsins samkvæmt, mun betri þekkingu á togurum en öðrum skipum enda hefur hann verið á togurum nær allan sinn starfsferil. „Mesta breytingin sem hefur orðið snýr að gerð skipanna sjálfra. Það var mikil breyting að fara úr síðutogara yfir í skuttogara og mikið af vinnunni færðist undir dekk. Þetta var auðvitað algjör bylting fyrir áhafnir í túrum að vetri til því á síðutogurum voru menn úti í vosbúð og úti á dekki í öllum veðrum. Á skuttogurunum myndast skjól á dekkinu og síðan fer öll aðgerð á fiski fram innandyra. Það hafa líka orðið mjög miklar breytingar sem snúa að veiðarfærunum og tækninýjungum, sem veita miklu meira af upplýsingum. Hér má nefna aflanemann, sem settur er á veiðarfærin. Hann var tekinn í notkun upp úr 1980 og var svakaleg bylting. Þessir aflanemar hafa þróast síðan. Tæknibreytingar eins og þessar hafa breytt gríðarlega miklu,“ segir Arngrímur. Hann nefnir einnig aukna sjálfvirknivæðingu á sjó sem hann segir komna mjög langt.
Á síðustu árum hafa íslenskar útgerðir, eins og Samherji, fjárfest í togurum sem eru umhverfisvænni og sparneytnari því þeir nota umtalsvert minna af olíu en eldri skip. Þá skila þessir nýju togarar meiri afköstum. „Þú sérð það á aflamagninu hvað þessi nýju skip breyta miklu. Fjögur, fimm þúsund tonn þóttu rosalega fínn ársafli á níunda áratugnum, þegar við vorum að byrja á Akureyrinni. Núna eru botnfiskveiðiskipin kannski að taka inn tíu þúsund tonn á ári.“
Lífið á sjó hefur gjörbreyst
Annað sem Arngrímur nefnir sem breytingu eru aukin og tíðari samskipti við fjölskyldur og vini í landi með nýrri og betri fjarskiptatækni um borð í skipum. „Þegar maður fór fyrst á sjóinn hringdi maður kannski heim í foreldra sína einu sinni í fimmtán daga túr. Í útvarpinu var svo ein rás. Þetta hefur auðvitað breyst gríðarlega mikið. Í dag fylgjast menn með lífi fjölskyldna sinna nánast á rauntíma gegnum netið. Tæknin er góð en menn þurfa að nota þetta á skynsamlegan hátt. Þetta hefur sína kosti og galla.“
Arngrímur segir að lífið á sjó henti ekki öllum. „Þú ert lokaður í ákveðnu rými til lengri tíma og þú verður að geta unnið með fólki. Þetta snýst ekki bara um að vinna með fólki því þú verður eiginlega að lifa með því líka. Maður nærist með áhöfninni og ver frístundum með henni líka. Maður hefur séð einstaklinga sem hafa ekki ráðið við þetta líf og farið að vinna við eitthvað annað. Svo eru sjálfsagt einhverjir sem hafa þumbast áfram en kannski ekki átt að gera það.“ Arngrímur segist aldrei hafa skynjað sig sem einhvern öldung eða upplifað sig mikið eldri en þeir sem hann hefur unnið með, þótt stundum hafi verið tuttugu til þrjátíu ára aldursmunur á honum og yngstu sjómönnunum í áhöfnum þeirra togara sem hann hefur stýrt.
Eftir að hafa siglt um heimshöfin og unnið á fjarlægum slóðum hefur Arngrímur unnið með fjölþjóðlegum áhöfnum. Hann segir að helsti munurinn að vinna með erlendum áhöfnum birtist í félagslega þættinum. „Þegar þú ert með annað tungumál þá á sér kannski ekki stað þessi djúpa umræða og tengsl manna úti á sjó verða ekki jafn sterk. Þetta hafa líka yfirleitt verið stærri áhafnir erlendis, stundum hundrað manna áhafnir, og þú kynnist mönnum ekki eins. Það má því segja að lífið á sjó verði örlítið einmanalegra.“
Arngrímur segir að yngri skipstjórar fari ekki í jafn langa túra og tíðkuðust hér áður fyrr og segist telja að skipstjórastarfið sé fjölskylduvænna en það var. Hann segist sjálfur oft hafa tekið 24-25 daga í hverjum túr og menn hafi kannski tekið þrjá túra í röð með stuttum stoppum inni á milli. Eftir langa túra hafi hins vegar ávallt fylgt löng frí og segist Arngrímur hafa nýtt þau vel. Þá hafi það ekki verið skrýtið að hætta sem skipstjóri og setjast í helgan stein. „Það hefur í raun ekki breyst mikið hjá mér við að hætta. Það er ekki eins og ég hafi labbað út af einhverri skrifstofu og ekki mætt á mánudegi. Ég þekki þetta líf vel. Ég hef ennþá gaman af þessu og gæti alveg unnið áfram sem skipstjóri en ég treysti mér ekki lengur í þessa löngu túra. Þessar löngu fjarvistir eru ekki eftirsóknarverðar og þessi spenna sem var alltaf til staðar hér áður fyrr, áður en maður fór út, það hefur aðeins dregið úr henni.“
Arngrímur er eins og áður segir kvæntur Jóhönnu Magnúsdóttur og eiga þau fjögur uppkomin börn og tíu barnabörn. Arngrímur segist núna ætla að einbeita sér að útivist og samverustundum með fjölskyldunni en hann gengur, hjólar, spilar golf og hefur verið á skíðum á veturna. „Svo langar okkur hjónum til að ferðast meira og við höfum sett stefnuna á það þegar aðstæður leyfa.“