Heildarafli og verðmæti Samherjaskipa

Heildarafli skipa Samherja hf. á árinu 2004 nam um 103 þúsund tonnum. Uppsjávarafli (síld, loðna og kolmunni) nam samtals um 74 þúsund tonnum og botnfiskafli á heimamiðum var samanlagður um 23.200 tonn á árinu. Heildarverðmæti landaðs afla á árinu 2004 nemur ríflega 5 milljörðum.

ea110_hala_h_01

Akureyrin EA 110 að veiðum á Halamiðum.
Mynd Þorgeir Baldursso

Þorskafli á heimamiðum nam alls um 11.500 tonnum  Af þessum þorskafla var ríflega 8.000 tonnum landað ferskum til vinnslu í starfsstöðvum félagsins á Dalvík og Stöðvarfirði.  Síldarafli á heimamiðum nam samtals um 16 þúsund tonnum og var 98% aflans unninn um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA og Baldvin Þorsteinssyni EA.  Loðnuafli var samtals um 31 þúsund tonn, en sjófryst voru rúm 10 þúsund tonn á loðnuvertíðinni síðastliðinn vetur.



Skip félagsins veiddu samtals rúm 5 þúsund tonn af úthafskarfa. Þá voru veidd tæp 20 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, 7 þúsund tonn af kolmunna og 1.500 tonn af þorski í Barentshafi.
 

Skip Samherja Skilmálar Framleiðsluverðmæti (milljónir króna) Afli (tonn)
Frysti- og ísfiskskip:      
Björgúlfur EA 312 FOB                         500                    5.000    
Akureyrin EA 110 FOB/CIF                         610                    5.600    
Björgvin EA 311 FOB/CIF                         530                    5.100    
Víðir EA 910 FOB/CIF                         810                    7.100    
Akraberg EA 410 CIF                         220                    1.800    
Fjölveiði- og uppsjávarskip:      
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 FOB/CIF                      1.550                   51.000    
Baldvin Þorsteinsson EA 10 FOB/CIF                         760                   20.100    
Oddeyrin EA 210 FOB                           50                     7.000    
       
Samtals                          5.030                 102.700    
       
Aflaverðmæti frystra afurða er uppreiknað í CIF verðmæti en aflaverðmæti ferskra afurða miðað við FOB skilmála.  Sama gildir um uppsjávarfisk, frystar m.v. CIF en fiskur í landvinnslu eða bræðslu m.v. FOB.

Afli  og verðmæti einstakra skipa árið 2004

Björgúlfur EA
Afli Björgúlfs á árinu nam samtals um 5 þúsund tonnum og var verðmæti aflans um 500 milljónir króna. Úthaldsdagar voru 284 og afli á úthaldsdag því ríflega 17,5 tonn. Verðmæti á úthaldsdag nam um 1,7 milljón króna. Skipið var frá veiðum í um fimm vikur á árinu vegna viðhalds.

Björgvin EA
Afli Björgvins EA á árinu 2004 nam um 5.100 tonnum að verðmæti ríflega 530 milljónir króna. Úthaldsdagar Björgvins voru 279 og afli á úthaldsdag því um 18,2 tonn og verðmæti á úthaldsdag um 1,9 milljón. Skipið var frá veiðum í um fjórar vikur á árinu vegna viðhalds.   Hluta úr árinu var skipið gert út á frystingu og ísfisk samhliða og síðustu mánuði eingöngu á ísfisk.

Akureyrin EA
Afli Akureyrar EA á árinu 2004 nam samtals rúmum 5.600 tonnum og var verðmæti aflans um 610 milljónir. Úthaldsdagar ársins voru 307 og afli á úthaldsdag því um 18,3 tonn. Verðmæti á úthaldsdag var nálægt tveimur milljónum króna.  Skipið var aðallega gert út á ísfisk á árinu en var hluta ársins á frystingu.

Víðir EA
Afli frystitogarans Víðis nam á árinu 2004 samtals 7.100 tonnum. Verðmæti aflans nam alls um 810 milljónum króna (cif). Úthaldsdagar ársins voru 307 og var afli á úthaldsdag því rétt um 23 tonn. Verðmæti á úthaldsdag var rúmar 2,6 milljónir.  Afli á úthaldsdag var um 23 tonn og verðmæti á úthaldsdag um 2,5 milljónir.

Baldvin Þorsteinsson EA
Afli Baldvins Þorsteinssonar EA nam á árinu 2004 rúmum 20 þúsund tonnum, þar af var bolfiskur, karfi og grálúða um 1.600 tonn, úthafskarfi um 2.200 tonn, síld um 3.200 tonn, kolmunni um 4.200 tonn og loðna um 9.300 tonn. Stór hluti loðnuaflans, eða um 60%, var frystur um borð. Verðmæti heildaraflans nam samtals 760 milljónum (fob/cif) og voru úthaldsdagar alls 274.

Vilhelm Þorsteinsson EA
Afli Vilhelms Þorsteinssonar EA nam samtals um 51 þúsund tonnum á árinu 2004. Verðmæti aflans nam alls um 1.550 milljónum (cif-verðmæti) og voru úthaldsdagar skipsins 336. Afli á úthaldsdag nam því ríflega 151 tonni að verðmæti um 4,6 milljónum króna.  Samtals veiddust 13.200 tonn af íslenskri síld og 19.200 tonn af norsk-íslenskri síld, en alls voru um 16.500 tonn af síldarflökum unnin um borð í skipinu. Þá veiddust rúmlega 15.200 tonn af loðnu og voru um 32% aflans fryst um borð. Einnig veiddust 2.500 tonn af kolmunna og um 500 tonn af karfa og grálúðu.