Nú um áramótin ákváðu forsvarsmenn Samherja að hrinda af stað heilsuátaki á meðal sjómanna félagsins. Í því skyni var samið við Líkamsræktina Bjarg á Akureyri og eru sérstakir líkamsræktartímar fyrir sjómenn Samherja þrisvar í viku. Um er að ræða tilraunaverkefni en góð mæting hefur verið það sem af er þannig að ljóst er að þetta fellur í góðan jarðveg meðal sjómanna.
„Það var ákveðið að gera þessa tilraun og sjá hver viðbrögðin yrðu. Flestir vildu örugglega vera duglegri að hreyfa sig en það þarf oft aðeins að ýta á okkur til að við förum af stað og þetta framtak Samherja er hugsað til þess. Ég sé ekki betur en að menn hafi tekið vel við sér og síðan er að sjá hvernig menn halda þetta út," segir Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.
Hann bætir því við að átakið sé hugsað sem upphaf að frekari heilsurækt meðal starfsmanna félagsins. Ef þessi þriggja mánaða tilraun meðal sjómanna takist vel sé fyrirhugað að bjóða upp á sambærilega hluti fyrir aðra starfsmenn enda sé öllum ljóst mikilvægi góðrar heilsu.
Reglubundin hreyfing besta heilsuverndin
Að sögn Ólafs Óskarssonar, íþróttakennara og rekstraraðila Líkamsræktarinnar Bjargs, hefur verið jöfn mæting í tímana og góð stemmning ríkjandi. „Atvinnurekendur vita auðvitað mætavel hvað góð heilsa starfsmanna er mikilvæg og reglubundin hreyfing og líkamsrækt er líkast til besta heilsuvernd sem völ er á. Það er líka alltaf að aukast að fyrirtæki taki þátt í að greiða heilsurækt fyrir starfsmenn sína og sama gera ýmis stéttarfélög. Ástæðan er auðvitað sú að menn vita að þetta skilar sér margfalt til baka fyrir alla aðila. Þessi gjöf Samherja til sjómanna sinna er afar rausnarleg og vonandi að menn verði duglegir að nýta sér hana," segir Ólafur. Fjölmargir starfsmannahópar eru viðskiptavinir Bjargs og nefndi Ólafur sem dæmi að starfsmenn skipaþjónustu Samherja hafa verið þar í tímum til fjölda ára.
Geta mætt í alla tíma
Sem fyrr segir eru sérstakir tímar fyrir sjómenn Samherja þrisvar í viku, kl. 9:30 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, en vert er að taka fram að þeir geta einnig mætti í hvaða annan þrektíma líkamsræktarstöðvarinnar sem er. Þá er tækjasalurinn á Bjargi opinn alla daga vikunnar og þangað geta menn einnig mætt. Í tækjasalnum er leiðbeinandi og er heppilegast að mæta á milli kl. 9 og 17 virka daga, á laugardögum milli kl. 9:30 og 14 og á sunnudögum milli kl. 9:30 og 13. Heimasíða Bjargs er á slóðinni www.bjarg.is og þar er m.a. m.a. hægt að nálgast tímatöflu með þeim þrektímum sem standa til boða.
Kraftalegir! Góð stemming í sjómannahópnum sem mætti |