Halldór Pétur Ásbjörnsson er gæða- og rekstrarstjóri bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði. Vinnsluhúsið er afar tæknivætt og eru þar að jafnaði unnin fimmtán til átján tonn af bleikju á dag en Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum.
Halldór Pétur er sjávarútvegsfræðingur, stundaði námið við Háskólann á Akureyri. Samherji og HA hafa um langt árabil haft með sér samkomulag um samstarf og lætur nærri að um þrjátíu sjávarútvegsfræðingar starfi hjá Samherja og tengdum félögum. Lang flestir þeirra stunduðu nám við HA. Halldór Pétur lauk mastersnámi við skólann í sjávarútvegs- og auðlindafræðum.
Allar stöðvar vottaðar
„Ég hef verið hérna í Sandgerði í eitt og hálft ár og námið nýtist mér vel, hérna snýst allt um að framleiða hágæða vöru sem seld er á kröfuhörðum alþjóðlegum mörkuðum. Samherji fiskeldi kemur að öllum stigum fiskeldis og vinnslu, sem sagt frá hrognum til neytenda. Allar stöðvar Samherja fiskeldis eru vottaðar af stórum og þekktum alþjóðlegum vottunaraðilum, enda gera okkar helstu kaupendur kröfur til strangra vottana á öllum stigum vinnslunnar. Þessi vottunarfyrirtæki koma reglulega í heimsókn og taka út starfsemina frá A til Ö, sömu sögu er að segja um kaupendur eins og verslanakeðjuna Whole Foods Market í Bandaríkjunum,“ segir Halldór Pétur þegar hann er spurður um gæða- og eftirlitsmál.
Alltaf á tánum
„Hérna fer til dæmis enginn inn í vinnsluna nema vera í hreinum fatnaði, með hárnet og svo framvegis. Síðan er vinnslan þrifin gaumgæfilega samkvæmt ákveðnum stöðlum. Öllum verkþáttum er fylgt eftir í hvívetna, enda verður rekjanleikinn alltaf að vera í fullkomnu lagi. Þess vegna verðum við alltaf að vera á tánum á öllum stigum vinnslunnar. Hraðinn í vinnslunni er líka mikill, hingað berst fiskurinn lifandi að morgni og hráefni hefur verið afgreitt til kaupenda nokkrum klukkustundum síðar. Vinnslan er vel búin, sjálfvirknin er veruleg og starfsfólkið býr yfir mikilli reynslu og þekkingu, sem er lykilatriði.“
Góðar umsagnir kaupenda
„Jú, jú hingað koma kaupendur reglulega og skoða vinnsluna og eldisstöðvarnar. Við fáum mjög góðar umsagnir frá þeim, bæði hvað varðar framleiðsluna og hvernig staðið er að aðbúnaði starfsfólks. Ferskfiskvinnslu fylgir eðlilega ákveðið stress og starfið krefst mikilla samskipta, bæði við starfsfólk, kaupendur og þjónustuaðila. Dagarnir eru því oftast fljótir að líða.“
Mælir með námi í sjávarútvegsfræðum
„Það er mikið að gerast í fiskeldi á Íslandi þessi misserin, þannig að sjávarútvegsfræðingar verða klárlega eftirsóttir í framtíðinni. Nám í sjávarútvegsfræðum er afskaplega praktískt, sem ég mæli eindregið með,“ segir Halldór Pétur Ásbjörnsson gæða- og rekstrarstjóri bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði.