Hlutafé Samherja aukið um rúmar 285 milljónir króna

-Hlutaféð notað til að kaupa hlut KEA í BGB-Snæfelli hf.

Hluthafafundur Samherja hf., sem haldinn var síðdegis í gær, samþykkti að auka hlutafé félagsins um 285.315.012 krónur, eða úr 1.374.684.988 krónum í 1.660.000.000 króna. Jafnframt samþykkti fundurinn að núverandi hluthafar féllu frá forkaupsrétti á hinu nýja hlutafé og verður það notað til að kaupa hlut KEA í BGB-Snæfelli hf. en stefnt er að sameiningu þessara tveggja félaga undir nafni Samherja og að sameiningin taki gildi eigi síðar en um næstu áramót.


Skiptahlutfall í hinu sameinaða félagi er þannig að núverandi hluthafar BGB-Snæfells eignast 26% í því og núverandi hluthafar Samherja hf. 74%. Samherji mun bjóða öðrum hluthöfum BGB-Snæfells sömu kjör og KEA við skipti á hlutabréfum í BGB-Snæfelli og Samherja en félagið mun mæta þeim kaupum með því að kaupa hlutabréf í Samherja á markaði. Sömu sögu er að segja af kaupum Samherja á hlut KEA í Fiskeldi Eyjafjarðar. Sá hlutur hefur þegar verið greiddur með hlutabréfum í Samherja sem félagið keypti á markaði.

Heildarveiðiheimildir hins sameinaða félags innan íslenskrar lögsögu nema 28.630 þorskígildistonnum og íslenskar veiðiheimildir utan lögsögu nema tæpum 5.200 þorskígildistonnum. Í öllum tilfellum eru veiðiheimildirnar langt undir tilskildu hámarki, eða svonefndu "kvótaþaki".

KEA stærsti hluthafinn


Eftir hlutafjáraukninguna er heildarhlutfé í Samherja hf. 1.660 milljónir króna, sem fyrr segir. Stærsti einstaki hluthafinn er KEA með 18,07% hlut þá Kristján Vilhelmsson með 16,72%; Þorsteinn Már Baldvinsson með 16,34%; Kaupþing hf. með 11,53%; Fjárfestingafélagið Skel ehf. með 5,41%; Fjárfestingafélagið Fjörður ehf. með 4,91%; Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. með 2,84%; F-15 sf. með 2,56%; Lífeyrissjóðurinn Framsýn með 1,56%; Sundagarðar ehf. með 1,50%; Lífeyrissjóður verslunarmanna með 1,34% og Tryggingamiðstöðin hf. með 1,21%. Alls eiga þessir 12 stærstu hluthafar 83,99% í félaginu.

Ný stjórn


Á hluthafafundinum var kosin ný stjórn fyrir Samherja. Aðalmenn í stjórn félagsins eru Finnbogi Jónsson, Hjörleifur Jakobsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Óskar Magnússon og Þorsteinn M. Jónsson. Í varastjórn eru þeir Eiríkur S. Jóhannsson og Kristján Jóhannsson.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 14. nóvember 2000.
Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460
9000.