Hlutafjáraukning FAB

Fréttatilkynning frá Samherja hf.:

Stjórn Samherja hf. hefur samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu þýska félagsins FAB GmbH fyrir allt að EUR 4.000.000 vegna kaupa þess á 58% hlut í félaginu Pickenpack – Hussmann & Hahn Seafood Gesellschaft MBH, sem er þýskt framleiðslufyrirtæki á frosnum sjávarafurðum. Seljandi hlutafjárins er Orlando en fyrir átti FAB 40% hlutafjár í félaginu.  Fjármögnun kaupanna annaðist KB banki.


Finnbogi A. Baldvinsson og Hreiðar Már Sigurðsson undirrita samkomulag um fjármögnun KB banka vegna kaupa og reksturs Pickenpack-Hussmann & Hahn. Með þeim á myndinni eru Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Sigurður Einarsson og Bjarki Diego.

Finnbogi A. Baldvinson, Samherji hf., Kristján  Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson ásamt erlendum fjárfestum, hafa í gegnum fjárfestingarfélagið FAB GmbH, gengið frá kaupum á tæplega 60% hlut í þýska fyrirtækinu Pickenpack-Hussmann & Hahn GmbH. Fyrir áttu sömu aðilar 40% hlutafjár félagsins. KB banki fjármagnar kaupin og rekstur félagsins með lánveitingu að heildarupphæð 83 milljónir Evra, eða ríflega sjö milljarðar íslenskra króna. Samningar um fjármögnun voru undirritaðir í Kaupthing Bank Luxemburg í dag. Í kjölfar kaupanna verður efnt til hlutafjáraukningar í FAB GmbH. 

Pickenpack-Hussmann & Hahn á sér tæplega hundrað ára gamla sögu í veiðum og vinnslu sjáfarafurða. Fyrirtækið, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði, sérhæfir sig í vinnslu afurða úr frosnu sjávarfangi og kaupir hráefni sitt alls staðar að úr heiminum. Á meðal viðskiptavina þess eru margar af stærstu smásölukeðjum Evrópu og er heildarvelta PPH&H um 20 milljarðar íslenskra króna. Hjá félaginu starfa um 650 manns í Cuxhaven og Lüneburg, þar sem höfuðstöðvar þess eru staðsettar.

Finnbogi A.Baldvinsson hefur verið forstjóri Pickenpack-Hussman & Hahn frá stofnun þess á síðasta ári, en þar áður var hann forstjóri Hussman & Hahn. Rekstur félagsins stendur traustum fótum og í kjölfar kaupanna og endurfjármögnunar verður blásið til enn frekari sóknar.

Finnbogi A. Baldvinsson:
“Þetta eru afar ánægjuleg tímamót í sögu félagsins. Í smásölugeiranum hefur mikil samþjöppun átt sér stað í Evrópu á undanförnum árum. Verslanakeðjurnar hafa stækkað verulega og til þess að tryggja eðlilega stöðu gagnvart þeim er nauðsynlegt að stækka framleiðslueiningarnar einnig. Með þessari fjárfestingu okkar hefur stefnan verið sett á frekari vöxt og það er afar ánægjulegt að íslensk fjármálastofnun, þ.e. KB banki,  skuli hafa náð þeim styrkleika að geta stutt þessa útrás með jafn myndarlegum og hagkvæmum hætti og raun ber vitni.”

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka:
Við teljum rekstur og framtíðaráform Pickenpack-Hussmann og Hahn  í senn áhugaverð og spennandi. Bankanum er það sérstakt ánægjuefni að styðja við útrásarverkefni íslensks atvinnulífs og ekki síst þegar um er að ræða útflutning á sérþekkingu öflugra aðila á sviði sjávarútvegs”.