Í jólafrí eftir frábært ár

Skipverjar Vilhelms Þorsteinssonar EA léttstígir á leið í jólafríið
Skipverjar Vilhelms Þorsteinssonar EA léttstígir á leið í jólafríið

- Aflaverðmæti ársins yfir einn og hálfur milljarður
- 20 þúsund tonnum af frystum afurðum landað

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 fjölveiðiskip Samherja kom til heimahafnar á Akureyri í morgun úr sinni síðustu veiðiferð á árinu. 
Árið hefur verið fengsælt hjá Vilhelmsmönnum, heildarafli ársins var tæplega 51 þúsund tonn af síld, loðnu, kolmunna og karfa.   Tuttugu þúsund tonn af afurðum voru framleidd og fryst um borð en kolmunna og hluta af loðnunni og síldinni var landað til bræðslu.  Heildarverðmæti aflans var 1,550 milljónir króna cif en fob verðmæti var 1,370 milljónir króna. 

Síðasta löndun skipsins var á Neskaupsstað í gær er 600 tonnum af frystum síldarflökum var landað.
Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri er afar ánægður með gengi skipsins á árinu.  "Þetta var gríðarlegt magn sem fryst var um borð og að framleiða svona magn  hefði aldrei tekist nema fyrir harðduglega og samhenta áhöfn".  Í áhöfn Vilhelms eru tæplega 50 menn og róa þeir flestir mánuð í senn og eru mánuð heima.  Skipið heldur aftur til veiða 2.janúar

ea11_skipverjar
Hjörtur, Aðalsteinn og Gunnlaugur búnir að festa landfestarnar

ea11_jol_01
14 stiga frost var á Akureyri í morgun er Vilhelm Þorsteinsson EA lagðist að bryggju
myndir: mó