Fréttatilkynning frá Samherja hf. :Dótturfyrirtæki Samherja hf. í Skotlandi Onward Fishing Company Ltd. ásamt hollenska sjávarútvegsfyrirtækinu Parlevliet Van der Plas B.V. hafa ákveðið að taka upp viðræður við Kaldbak um kaup á öllum hlutabréfum í útgerðarfélaginu Boyd Line Management Services Ltd. í Hull. Gert er ráð fyrir að eftir kaupin verði Boyd Line að hálfu í eigu hollenska félagsins og að hálfu í eigu Onward Fishing Co.
Boyd Line er útgerðarfyrirtæki í Bretlandi sem hefur verið í eigu Brims s.l. ár. Félagið gerir út einn frystitogara Arctic Warrior og hefur bolfiskveiðiheimildir, aðallega við Noreg og Svalbarða. Að auki hefur félagið veiðleyfi við Grænland. Félagið hefur yfir að ráða ríflega 4.000 tonna aflaheimildum í þorski. Onward Fishing Company er útgerðarfyrirtæki með aðsetur í Aberdeen í Skotlandi sem hefur verið í eigu Samherja frá árinu 1996. OFC gerir út einn togara Normu Mary (áður Akureyrin) og ræður yfir aflaheimildum við Grænland, Noreg, Svalbarða og í Norðursjó.