-En hvernig er að eyða jólunum úti á reginhafi, fjarri fjölskyldunni og öðrum ástvinum? Við spurðum skipstjórann að því.
Hann sagði að færeyskir sjómenn væru því ekki óvanir enda hefði það tíðkast mjög lengi í Færeyjum. Til marks um það nefndi hann að kvenfélög í Færeyjum hefðu lengi haft það fyrir sið að útbúa jólapakka sem síðan væru sendir öllum færeyskum sjómönnum sem væru fjarri fjölskyldunni á jólum.
Ljúf og helg stund
“Aðfangadagskvöldið hjá okkur var mjög hátíðlegt. Við tókum veiðarfærin inn og létum reka í um það bil fjóra tíma. Menn fóru í sín bestu föt og síðan var haldin guðsþjónusta í borðsalnum þar sem sungnir voru jólasálmar. Að því búnu snæddum við dýrindis önd og í eftirrétt var hrísgrjónagrautur, með möndlu að sjálfsögðu. Að því búnu opnuðu menn jólapakkana sína, bæði frá ættingjum og vinum og einnig frá færeyska kvenfélagasambandinu. Að því búnu var efnt til spurningakeppni og ég held ég geti sagt að menn hafi átt hér mjög ljúfa og helga stund,” sagði Eyðun á Bergi.
Hann sagði að á gamlárskvöld yrði rastakjöt á borðum en það er þurrkað lambakjöt sem þykir hið mesta lostæti. Eyðun á Bergi bað fyrir bestu kveðjur í land frá sér og skipverjum sínum. Hann sagði að lokum að það eina örugga í veiðiferð sem þessari væri að skipverjar fengju alltaf eitthvað gott að borða!
Vesturvon er nú á þorsk- og ýsuveiðum í rússneskri landhelgi í Barentshafi og ganga þær ágætlega. Þess má geta að þaðan sem skipið er statt nú er um 200 sjómílna sigling til Murmansk og um 250 sjómílur til Noregs.
Ágæt veiði hjá Baldvin NC þrátt fyrir brælu
Baldvin NC, sem er í eigu DFFU í Þýskalandi, hefur verið á karfaveiðum í Rósagarðinum, norðaustur af Íslandi, seinni hluta desembermánaðar. 14 manna áhöfn er á skipinu. Að auki er íslenskur eftirlitsmaður frá Fiskistofu um borð en veiðarnar eru úr fiskveiðiheimildum Evrópusambandsins.
Að sögn Sigurðar Kristjánssonar, skipstjóra, hafa veiðarnar gengið þokkalega þrátt fyrir erfitt tíðarfar. “Það má segja að hér hafi verið bræla allan tímann, að aðfangadegi og jóladegi undanskildum, en þá var veðrið prýðilegt. Við höfum ekki svo mikið sem séð eitt einasta skip á miðunum allan tímann þannig að það má segja að okkur líði eins og “Palli var einn í heiminum”,” sagði Sigurður í léttum dúr.
Hann segir að jólin hafi verið haldin hátíðleg um borð, þótt ólíku sé saman að jafna að halda jól úti á sjó eða í faðmi ástvina sinna. “Menn fóru í sín bestu föt, snæddu aligæs í aðalrétt og bakaðar kökur af öllum stærðum og gerðum í eftirrétt. Síðan opnuðum við jólapakkana og höfðum það huggulegt fram eftir kvöldi. Ég segi fyrir mig að ég held ég hafi aldrei á ævinni fengið jafn marga jólapakka og nú og er bara sæll og glaður.”
Baldvin NC er nú á leið til Cuxhaven í Þýskalandi og er gert ráð fyrir því að skipið landi þar á nýársdag. Aflinn er um 115 tonn, aðallega karfi, og sagðist Sigurður vonast eftir því að fá mjög gott verð fyrir aflann. Sú er gjarnan raunin á fyrstu dögum nýs árs, sökum þess hversu fá skip landa á þeim tíma.
“Hér er ekkert gefið eftir!”
-segir Ólafur Sigurðsson hjá Icefresh í Cuxhaven
Vinnsla hjá fiskvinnslunni Icefresh í Cuxhaven hefur gengið vel. Þar var unnið fram eftir degi á Þorláksmessu og vinnsla hafin að nýju þriðja dag jóla. Hlé var síðan gert í lok dags í dag (30.des) en vinnsla hefst á fullu aftur aðfaranótt mánudags. “Hér er ekkert gefið eftir,” eins og sjá má á þessu,” sagði Ólafur Sigurðsson, framleiðslustjóri Icefresh í Cuxhaven, þegar tíðindamaður heimasíðunnar sló á þráðinn til hans fyrr í dag.
Hjá Icefresh í Cuxhaven starfa rúmlega 25 manns og hefur vinnslan haft nægt hráefni sem kemur víða að. “Við erum fyrst og fremst í karfavinnslu en við höfum einnig unnið ufsa og nokkuð af steinbít. Þetta er fyrsta heila rekstrarár verksmiðjunnar og ég get ekki sagt annað en að við séum sáttir með það hvernig til hefur tekist,” sagði Ólafur.
Hann segir lífsmáta fólks í Cuxhaven svipaðan og hjá okkur Íslendingum og það gildi einnig um hátíðarhöld um jól og áramót. “Við Íslendingarnir eru mjög ánægðir með snjóinn sem féll um daginn, enda var hann hæfilega mikill hér í Cuxhaven, 20-30 sentimetrar. Snjórinn gerir þetta bara ennþá jólalegra. Aðrir eru ekki eins ánægðir með snjókomuna enda skapar hún víða vandræði. En ég er að hugsa um að fara drífa mig í að kaupa mikið af flugeldum, skottertum og svoleiðis, enda verðlagið á slíku dóti ótrúlega lágt hérna í Þýskalandi,” sagði Ólafur Sigurðsson að lokum og bað fyrir bestu kveðjur heim til Íslands.
Hér er Ólafur SIgurðsson ásamt nokkrum starfsmönnum karfavinnslunnar í Cuxhaven