Fjallað er um siðareglur Ríkisútvarpsins og viðbrögð við kæru Samherja í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að málið verði prófraun fyrir útvarpsstjóra og varpað er fram þeirri spurningu hvort útvarpsstjóri taki hagsmuni starfsmanna sinna fram yfir hagsmuni eigenda Ríkisútvarpsins.
Tilefni greinarinnar, sem Andrés Magnússon skrifar, er kæra Samherja á hendur ellefu starfsmönnum Ríkisútvarpsins fyrir siðanefnd stofnunarinnar vegna skrifa þeirra á samfélagsmiðla þar sem þeir tóku afstöðu gegn Samherja. Í greininni segir Andrés að hvorki þurfi að taka efnislega afstöðu til kæru Samherja né brjóta til mergjar hvaða skoðanir starfsmanna Ríkisútvarpsins voru þar átaldar til að sjá að „þeir höfðu að engu fyrirmæli siðareglna um að þeir tækju ekki opinberlega afstöðu í hitamálum á félagsmiðlum.“
Í greininni fjallar Andrés um viðbrögð Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra við fyrsta þætti Samherja þar sem fjallað var um vinnubrögð Ríkisútvarpsins í þætti Kastljóss sem var sýndur hinn 27. mars 2012. Aðalumfjöllunarefni þáttarins varðaði skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs sem Kastljósþátturinn byggði á en Samherji hafði fengið staðfest skriflega frá Verðlagsstofu að engin slík skýrsla hafi verið samin.
Í yfirlýsingu sem var send út rúmum þremur klukkustundum eftir að þáttur Samherja var sýndur var meginfullyrðingu þáttarins hafnað. „Þar hafnaði útvarpsstjóri öllum ásökunum, en síðan hefur komið í ljós að umrætt plagg var hvorki opinber skýrsla né í fórum Rúv. Útvarpsstjóri er reyndur embættismaður, svo erfitt er að skilja af hverju hann var svo afdráttarlaus um það, sem hann gat ekki haft mikið fyrir sér um. Og síðan var sagt sitt á hvað að skjalið væri til eða ekki, að Seðlabankanum hefði verið afhent afrit af því eða frumskjalið. Hvers vegna var allur þessi feluleikur um lykilskjal málsins, sem varð kveikjan að rannsókn Seðlabankans, þótt ekki væri það með í málsskjölum þegar til kastanna kom fyrir dómi? Um það er erfitt að fullyrða, en líklegasta skýringin er sjálfsagt örstutt athugasemd starfsmanns Verðlagsstofu skiptaverðs í lok þess,“ segir í grein Andrésar. Í þætti Kastljóss var aðeins vitnað til fyrstu setningarinnar en ekki niðurlagsins. „Það ber ekki vott um vönduð vinnubrögð eða framsetningu, svo vægt sé til orða tekið,“ skrifar Andrés.
Í greininni er fjallað um þá staðreynd að siðanefnd RÚV hafi ekki verið skipuð í rúmt ár vegna endurskoðunar á siðareglum sem þó voru ekki nema þriggja ára gamlar. Skipa þurfi sérstaklega í siðanefndina til að fjalla um kæru Samherja. Útvarpsstjóri bíði nú tilnefninga frá starfsmannafélagi RÚV og Siðfræðistofnun en útvarpsstjóri skipi formann nefndarinnar án tilnefningar. Það sé álitamál sé hvort hin nýskipaða siðanefnd muni fjalla um kæruna af sanngirni. „Þetta mál kann að reynast prófraun bæði fyrir Ríkisútvarpið og Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Ekki er sjálfgefið að ríkisvaldið reki fjölmiðil fyrir almannafé og enn síður að það reki fréttastofu. Þar er enda reglan sú að mjög ríkar kröfur eru gerðar til hlutleysis, sanngirni og vandaðra vinnubragða. En þegar ekki er hirt um að framfylgja lögum og siðareglum er voðinn vís. Þá reynir sérstaklega á útvarpsstjóra, hvort hann standi með eigendunum eða starfsmönnunum,“ segir í grein Andrésar sem má nálgast hér.
Ekkert svigrúm fyrir skoðanaglaða fréttamenn hjá BBC
Það er ekki aðeins hér á Íslandi sem skapast hefur umræða um skrif fréttamanna, sem starfa hjá fjölmiðlum í ríkiseigu, á samfélagsmiðla. Tim Davie, nýr forstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, telur að trúverðugleiki BBC hafi beðið hnekki vegna skrifa starfsmanna á samfélagsmiðla og hyggst hann framfylgja svokölluðum hlutleysisreglum stofnunarinnar af festu. Lét hann verða sitt fyrsta verk í starfi að lýsa því yfir að ef frétta- og dagskrárgerðarmenn vildu taka virkan þátt í þjóðmálaumræðu væri best ef þeir ynnu hjá öðrum fjölmiðlum þar sem hlutleysi BBC yrði að vera hafið yfir allan vafa.