-Björgólfur Jóhannsson svarar Kristni Hrafnssyni talsmanni Wikileaks
Sæll Kristinn Hrafnsson og hafðu þökk fyrir opna bréfið. Í minni heimasveit er til siðs að svara sendibréfum jafnvel þótt opin séu. Það geri ég nú en ætla mér þó ekki að stunda bréfaskriftir við þig í framhaldinu.
Það kemur mér þægilega á óvart að af bréfi þínu virðist mega ráða að þú hafir nokkurn áhuga á að hið sanna komi ljós. Það er líka gott að þú staðfestir í bréfinu að tölvupóstarnir hafi verið handvaldir eins og ég hélt fram. Við þurfum þá ekki að deila um það.
Athugun Samherja á þeim gögnum sem Wikileaks birti leiddi í ljós að aðeins voru birt 42% af tölvupóstum Jóhannesar Stefánssonar frá tímabilinu 2014-2016. Við nánari skoðun kom í ljós að hlutfallið var miklu lægra og er það nær 30%. Þannig virðist 50 þúsund tölvupóstum hafa verið sleppt.
Kristinn, þú segir í bréfi þínu til mín:
„Ég tók einnig þá ákvörðun að láta sigta út úr tölvupóstum og gögnum það sem ég taldi óþarfi að birta þar sem fjallað var meðal annars um nokkuð persónuleg mál núverandi og fyrrverandi starfsmanna Samherja, upplýsingar eins og launagreiðslur, atvinnuleyfi með ítarupplýsingum, skönnuð vegabréf og fleira í þeim dúr. Hugmyndin að þessu var tillitssemi við almenna starfsmenn fyrirtækisins sem ég er viss um að eru upp til hópa sómafólk.“
Mér þótti þessi staðfesting þín mjög áhugaverð því ég fæ ekki betur séð en að þessi vinnubrögð gangi í berhögg við verklagsreglur Wikileaks sem hefur haft þá stefnu að birta gögn og leyfa almenningi að meta þau. Þá vekur bréfið ýmsar spurningar. Hverjir lásu og völdu tölvupóstana með Wikileaks? Voru það fréttamenn Ríkisútvarpsins og Stundarinnar? Voru þessir fréttamenn velja tölvupósta sem pössuðu við þá sögu sem átti að segja? Mér leikur síðan forvitni á að vita, Kristinn, hvort þú sjálfur hafi kveðið upp gildisdóma um hvaða starfsmenn Samherja eru sómakærir og heiðarlegir og hverjir ekki? Það væri fróðlegt að vita hvernig það mat fór fram.
Síðan er það umhugsunarefni að þið virðist alls ekki hafa fylgt því sem þú segir um persónuleg málefni starfsmanna Samherja því inni á Wikileaks er nú mikið magn upplýsinga sem hafa enga tengingu við starfsemina í Namibíu.
Staðfesting þín á því að tölvupóstarnir voru handvaldir og að Wikileaks hafi notið fulltingis fréttamanna við sigtun þeirra hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem telja að framsetning á fréttum um starfsemi Samherja í Namibíu hafi verið vönduð og hlutlæg frásögn af staðreyndum. Ég leyfi mér svo að efast um hvort þessi vinnubrögð, að handvelja gögn sem styðja einhliða frásögn, samræmist ábyrgð og skyldum blaða- og fréttamanna. Ég stóð alltaf í þeirri trú að fréttamenn hefðu sannleiksleit að leiðarljósi í sínum störfum. Það var kannski misskilningur hjá mér.
Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.
Kær kveðja
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja