|
|
|
Frystitogarinn Kiel sem gerður er út af DFFU dótturfélagi Samherja hf. kom til hafnar á Akureyri í gærkvöld með um 700 tonn af frystum þorskafurðum. Einnig voru um borð tæplega 300 tonn af mjöli og lýsi. Skipið var að koma úr 70 daga veiðiferð í Barentshafi og var heildarafli upp úr sjó um 2 þúsund tonn. Verðmæti afurðanna er áætlað um 300 milljónir króna sem er með allra mesta verðmæti sem komið hefur að landi eftir eina veiðiferð.
Brynjólfur Oddsson skipstjóri á Kiel var að vonum kampakátur við heimkomuna. "Við fórum frá Íslandi í lok júlí og gengu veiðarnar afar vel þangað til allra síðustu dagana þegar árstíðaskiptin voru farin að segja til sín. Veðrið var ágætt allan tímann enda er veður almennt betra í Barentshafi en á Íslandsmiðum", sagði Brynjólfur og bætti við að Kiel væri afar gott sjóskip.
Í áhöfn skipsins eru 32 menn og vinnslan var á fullum afköstum allan tímann að sögn Brynjólfs skipstjóra.
Kiel verður á Akureyri í um vikutíma vegna löndunar, viðhalds og aðfangaöflunar en heldur næst til veiða á Grænlandsmið.
Skip á vegum Samherja hafa landað óvenju oft á Akureyri að undanförnu og umtalsverðum verðmætum verið skipað á land. Baldvin Þorsteinsson EA 10 kom í fyrradag með yfir 300 tonn af afurðum innanborðs og er verðmæti aflans metið á um 80 milljónir króna.