„Við lítum á þetta sem stórt skref í þá átt að fullnýta aflann á togurunum. Þá skapast með þessu meiri vinna í hausaþurrkuninni og að sjálfsögðu aukin verðmæti,“ segir Birgir Össurarson, sölu- og markaðsstjóri Samherja.
Mikilvægt að vel takist til
Hann leggur áherslu á að nokkurn tíma geti tekið að þreifa sig áfram með heppilegasta fyrirkomulagið, t.d. varðandi geymslu á hausunum um borð og fleira í þeim dúr. Um verulegt magn er að ræða og mikilvægt upp á framhaldið að vel takist til þannig að verkefnið reynist arðbært. „Sjávarútvegsfyrirtæki á borð við Samherja eiga allt undir því að auðlindin gefi sem mest af sér og að gengið sé um hana með skynsamlegum hætti. Innan Samherja er jafnan kappkostað að ryðja brautina með nýjungar og framþróun inn sjávarútvegsins og við lítum á þetta verkefni sem lið í því,“ segir Birgir en bætir því við að fleiri fyrirtæki séu með svipuð verkefni í gangi.