Fjölveiðiskipið Kristina EA hefur verið selt til Rússlands og verður afhent nýjum eigendum í næstu viku. Þar með lýkur ríflega 10 ára sögu þess í eigu Samherja.
Kristina EA er um 7.000 tonn að stærð og 105 metra langt, smíðað á Spáni árið 1994. Það varð stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans þegar það kom hingað til lands í maí 2005 og bar þá nafnið Engey RE-1. Samherji keypti skipið í mars 2007 af HB-Granda hf. og nefndi það Kristina EA.
Skipið hefur reynst farsælt í rekstri þennan áratug. Það fór í sína síðustu veiðiferð á laugardaginn 16. september sl. og lagði upp frá Færeyjum. Það hóf veiðar daginn eftir í svokallaðri Síldarsmugu á alþjóðlega hafsvæðinu á milli Íslands, Færeyja og Noregs. Kristina landaði 2.180 tonnum af frystum makríl í Hafnarfirði á þriðjudaginn eftir 6 sólarhringa á miðunum. Áhöfnin notaði tímann á siglingunni til Hafnarfjarðar til að klára að frysta aflann. Áætlað aflaverðmæti er um 300 milljónir króna. Síðasta veiðiferðin reyndist sú besta í 10 ára sögu skipsins hjá Samherja.
Skipin gerast ekki mikið betri
„Það má alveg orða það svo að skipið hafi endað sinn feril hjá okkur á toppnum,“ segir Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri Kristinu EA. „Kristina er stórt og mikið skip sem fer afar vel í sjó auk þess sem aðbúnaður um borð er góður og vinnslan prýðileg. Það má eiginlega segja að skipin gerist ekki mikið betri en þetta. Það er því vissulega söknuður af Kristinu en á hinn bóginn er það staðreynd að allt hefur sinn tíma,“ segir Arngrímur.
Áhöfn skipsins mun sigla því til Álasunds en þar verður það afhent nýjum eigendum næstkomandi þriðjudag.
Þess má geta að Kristina EA er hið sjötta í röð systurskipa sem rússneska útgerðin hefur fest kaup á. Skipið verður gert út til veiða á alaska-ufsa í Beringshafi en þangað er um 2ja mánaða sigling frá Álasundi; yfir Atlantshafið, um Panamaskurðinn og Kyrrahafið. Skipið á því langt ferðalag framundan.