Mbl.is/Hafþór
Baldvin Þorsteinsson EA 10 lagðist að bryggju í Reykjavík fyrir hádegi í gær með fullfermi af karfa sem fékkst á Reykjaneshrygg. Aflinn upp úr sjó var um 900 tonn og var skipið á veiðum í aðeins 13 daga. Þetta er einn mesti karfaafli hjá íslensku skipi á úthaldsdag. Miðað við 13 sólarhringa á veiðum var aflinn 70 tonn á dag.
Leifur Þormóðsson, stýrimaður á Baldvin Þorsteinssyni EA, sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að það hafi verið sannkölluð mokveiði á karfamiðunum á Reykjaneshrygg. Hann sagði að þeir væru með 23 þúsund kassa og það kæmist varla meira fyrir í skipinu. Þeir fengu 35-40 tonn í hverju holi og var dregið allt frá fjórum og upp í 10 tíma. Mest fengu þeir rúm 80 tonn á einum sólarhring. Veiðisvæðið var um 120 mílur vestur af Reykjanesi.
Leifur sagði að veiðin hafi verið mjög góð allan tímann, en þó best í byrjun veiðiferðar, strax eftir sjómannadag, enda hafi færri skip þá verið á veiðisvæðinu. Karfinn er hausskorinn og frystur um borð og fer aflinn í gáma og verður sendur á Japansmarkað. Skipið hélt strax aftur á karfamiðin á Reykjaneshrygg í morgun.