Landanir Samherjaskipa um fiskveiðiáramót

Akureyrin EA 110 lagðist drekkhlaðin að bryggju á Akureyri í morgun með um 565 tonn af frosnum afurðum, aðallega ufsa.  Aflinn var alls um 1.090 tonn en aflaverðmæti afurðanna er um 95 milljónir króna.

ea110h
Akureyrin EA 110 við bryggju á Akureyri í morgun

ea110_hala_h
Akureyrin EA 110 við veiðar á Halanum í síðustu viku
 

ea311_a_veidum
Björgvin EA 311 að veiðum fyrr í mánuðinum
Myndirnar tók Þorgeir Baldursson

  "Veiðiferðin tók um 38 daga, við byrjuðum á karfa fyrir austan land og síðan færðum við okkur yfir á Halann þar sem var góð ufsaveiði, sagði Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri á Akureyrinni.  Landað var úr skipinu í dag en afurðirnar eru færðar beint yfir í flutningaskip frá flutninga-fyrirtækinu CTG, sem flytur þær til Evrópu.
Önnur skip Samherja hafa einnig verið að landa góðum afla á undanförnum dögum.  Baldvin Þorsteinsson EA 10 landaði í síðustu viku 520 tonnum af frystum úthafskarfa sem voru unnin úr rúmum 1.050 tonnum úr sjó. Aflaverðmætið var tæpar 67 milljónir króna.
Björgvin EA 311 kom úr sinni síðustu veiðiferð á fiskveiðiárinu fyrir helgina og var heildarafli veiðiferðarinnar 710 tonn úr sjó sem gerir 353 tonn af afurðum.  Heildarverðmætið var 65 milljónir króna.
Víðir EA 910 er enn að veiðum, hefur landað einu sinni svokallarðri millilöndun og er afli yfirstandandi veiðiferðar kominn í um 1.360 tonn sem gerir um 725 tonn af afurðum.  Aflinn er mest ufsi en einnig úthafskarfi.  Aflaverðmætið er komið í rúmlega 120 milljónir króna.