Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasamband Íslands undirrituðu nýverið nýjan kjarasamning vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Þessa dagana er verið að kynna samninginn, niðurstaða atkvæðagreiðslu liggur fyrir síðar í mánuðinum. Flestir starfsmenn í fiskvinnsluhúsum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á Dalvík og Akureyri eru í Einingu Iðju, sem er aðili að samningnum.
65 þúsund króna hækkun á mánuði
Verði samningurinn samþykktur er ljóst að laun flestra starfsmanna Samherja og tengdra félaga hækka umtalsvert. Samkvæmt heimasíðu Einingar Iðju hækka dagvinnulaun fiskverkafólks með sjö ára starfsreynslu um nærri 65 þúsund krónur á mánuði en flestir starfsmenn í fiskvinnsluhúsunum eru með sjö ára starfsaldur eða hærri. Heildardagvinnulaun með bónus hækka um 12,4% og verða 625 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt heimasíðu félagsins.
Bónusinn hækkar
Niðurstaðan sem kynnt er á heimasíðu Einingar Iðju er í meginatriðum í samræmi við útreikninga Samherja. Samkvæmt kynningu á heimasíðu félagsins hækkar bónus um 13.866 krónur á mánuði og verður samkvæmt nýjum samningi liðlega 187 þúsund krónur á mánuði.
Í þessu sambandi er rétt að árétta að samkvæmt samningum er bónus ekki greiddur á t.d. frídögum. Sé tekið tillit til þess, er hækkunin að jafnaði 12,700 krónur á mánuði.
Enginn starfmaður á lægsta taxta
Samtök atvinnulífsins hafa í sínum kynningum almennt talað um að grunntaxtar hækki samkvæmt samningnum um 35 þúsund krónur á mánuði. Sú hækkun er miðuð við byrjunarlaun á lægsta taxta og engan bónus. Rétt er að undirstrika að enginn hjá Samherja eða tengdum félögum fær laun greidd samkvæmt þessum forsendum. Hækkunin er umtalsvert meiri, eins og fyrr segir.
Bónusgreiðslur þrisvar sinnum hærri hjá Samherja og tengdum félögum
Í nýjum kjarasamningi er tekið fram að lágmarksbónusar í fiskvinnslu skuli hækka úr 295 krónum í 319 krónur á klukkustund. Bónusgreiðslur í fiskvinnslum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa eru rúmlega þrisvar sinnum hærri en lágmarkið og hækka úr um 1.000 krónur á klukkustund í 1.080 krónur á klukkustund.