Nimnual Khakhlong fagnar því í ár að hafa búið á Dalvík í tvo áratugi. Hún hefur jafnlengi unnið í landvinnslu Samherja á Dalvík. „Tíminn er fljótur að líða, það er gaman í vinnunni og gott að búa á Dalvík,“ segir hún.
Nim, eins og hún er gjarnan kölluð, er frá Thailandi. Hún flutti til Íslands með mömmu sinni þegar hún var 17 ára gömul og með þeim í för voru m.a. frænkur hennar.
Ánægð á Dalvík
„ Hérna á Dalvík hefur okkur liðið vel. Við unnum báðar í landvinnslunni og kunnum því vel, vorum ánægðar í vinnunni,“ segir hún. „Ég er glöð yfir að við gripum þetta tækifæri á sínum tíma.“
Nim hefur einkum og sér í lagi starfað við snyrtingu í gegnum árin en kveðst hafa prófað eitt og annað í landvinnslunni.
„Mér finnst ágætt að vera í snyrtingunni. Stundum þarf að vinna mikið og það er bara skemmtileg stemmning sem skapast þegar allir eru að leggja sig fram í sínum störfum,“ segir hún og bætir við að allir stefni að sama markmiði, að framleiða fiskafurðir í hæsta gæðaflokki.
Fyrsta flokks aðstaða
Landvinnslan á Dalvík er mjög tæknivædd og aðbúnaður starfsfólks er góður.
„Það er allt fyrsta flokks og aðstaðan er mjög góð fyrir okkur starfsfólkið. Það munar auðvitað miklu. Mér leiðist aldrei í vinnunni, hef gaman af því sem ég starfa við og dagurinn er yfirleitt fljótur að líða,“ segir Nim.
Mikið að gera
Þegar vinnudegi lýkur í landvinnslunni snýr hún sér gjarnan að annarri vinnu með eiginmanninum, Stefáni Bjarmar Stefánssyni en þau reka veitingastað í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Áður rak Stefán matarvagn og bauð þá m.a. upp á taílenskan mat sem þau elduðu gjarnan í sameiningu. Einnig hafa þau tekið að sér að baka kökur fyrir viðburði.
„Það er oft mikið að gera hjá mér og margir furða sig á hvernig ég komist yfir þetta en ég er ein af þeim sem á erfitt með að vera lengi kyrr,“ segir Nim.
Rætt er við Nimnual Khakhlongí tímaritinu Ægi og er viðtalið birt hér í styttri útgáfu.