Líkan af systurskipunum Sléttbak EA 304 og Svalbak EA 302 var afhjúpað og afhent við hátíðlega athöfn í matsal Útgerðarélags Akureyringa, miðvikudaginn 1.nóvember, nákvæmlega hálfri öld eftir að þessi glæsilegu skip komu í fyrsta sinn til Akureyrar.
Að smíði líkansins stendur hópur er kallar sig „Stellurnar,“ sem er áhugahópur um varðveislu sögu ÚA togara. Líkanið smíðaði Elvar Þór Antonsson á Dalvík.
Stellunafnið á sér uppruna í nöfnum skipanna áður en þau urðu að Svalbak og Sléttbak, þegar ÚA keypti þau frá Færeyjum.
Fjölmenni sótti hátíðina í ÚA salnum, svo sem sjómenn sem voru á Stellunum. Einnig færeyskt áhugafólk um Stellurnar, sem gerði sér ferð til Akureyrar til að taka þátt í viðburðinum.
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja bauð gesti velkomna og þakkaði Stellunum fyrir frumkvæði að smíði glæsilegs og vandaðs líkans. Mikilvægt væri að varðveita og skrásetja sögu útgerðar á Akureyri, svo sem skipa.
Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri er hvatamaður að verkefninu. Hann segir að sú hugmynd hafi kviknað sl. vetur að setja á laggirnar söfnun til að standa straum af kostnaði við að smíða líkan af skipununum. Tímasetningin á afhjúpun líkansins hafi verið einstaklega ánægjuleg og táknræn.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru í hófinu í ÚA.