Líkön af ‏ þremur skipum ÚA afhjúpuð

Elvar Þór Antonsson við líkönin/ myndir: Samherji.is/einkasafn
Elvar Þór Antonsson við líkönin/ myndir: Samherji.is/einkasafn

Fjölmenni var á afmælishátíð sem efnt var til í matsal Útgerðarfélags Akureyringa fimmtudginn 19. desember. Fyrir sléttum fimmtíu árum kom togarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar en skipið var smíðað á Spáni.

Aðeins þremur mánuðum eftir að Kaldbakur kom til heimahafnar, kom systurskipið Harðbakur EA 303 til Akureyrar. Líkanið af Kaldbak er því sömuleiðis líkan af Harðbak, enda um systurskip að ræða.

Á afmælishátíðinni var einnig afhjúpað líkan af togaranum Sólbak EA 5, sem kom til heimahafnar í febrúar 1972. Togarinn var upphaflega smíðaður í Póllandi árið 1967 fyrir franska útgerð.

Kaldbakur EA 1 landaði á Akureyri á afmælisdeginum

Það má því segja að þrír togarar hafi komið heim til Akureyrar.

Líkönin smíðaði Elvar Þór Antonsson á Dalvík. Fyrrum sjómenn hjá ÚA hafa beitt sér fyrir smíði líkana af skipum ÚA með stuðningi ýmissa stuðningsaðila.

Eins og fyrr segir eru liðin fimmtíu ár frá því togarinn Kaldbakur 301 kom nýr til heimahafnar. Svo vel vildi til  að Kaldbakur EA 1 landaði fiski til vinnslu á Akureyri, það skip var smíðað í Tyrklandi árið 2017.

Stóra stundin runnin upp

Á afmælishátíðinni þakkaði Sigfús Helgason sjómönnum og öðrum stuðningsaðilum fyrir samstöðuna við verkefnið. Freysteinn Bjarnason yfirvélstjóri á Kaldbak EA 301 sagði frá smíði skipsins og heimsiglingu. Sævar Örn Sigurðsson loftskeytamaður sagði frá heimsiglingu Harðbaks EA 303. Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri rifjaði upp sjómannslífið. Hans fyrsti túr sem skipstjóri var á Sólbak, aðeins 22 ára gamall. Karlakór Akureyrar-Geysir söng nokkur lög.

„ Ágætu gestir, stóra stundin er runnin upp. Kaldbakur EA 301, Harðbakur EA 303 og Sólbakur EA 5 eru aftur komnir heim til Akureyrar. Til hamingju sjómenn með þessa fallegu hugsjón sem þið hafið skapað með samstöðunni, væntumþykjunni og virðingunni fyrir gengnum og sigldum tímum. Verkin sýna hér merkin,“ sagi Sigfús Helgason í ávarpi sínu á afmælishátíðinni í gær.

Þakkir

Á afmælishátíðinni var skrifað undir samning við Elvar Þór Antonsson fyrir hönd fyrrum sjómanna ÚA um smíði á likani af ÚA síðutogaranum Harðbak EA 3 og stefnt er að því að afhjúpa hann í kringum 80 ára afmæli Útgerðarfélags Akureyringa næsta vor.

Samherji þakkar sjómönnum ÚA fyrir framtakið og öllum þeim er að verkefninu hafa komið með einum eða öðrum hætti. Með þessum líkönum er með ákveðnum hætti verið að varðveita merka sögu i atvinnuháttum þjóðarinnar.