Loðnufrysting fjölveiðiskipanna í fullum gangi

Baldvin Þorsteinsson EA 10 að koma inn til löndunar
Baldvin Þorsteinsson EA 10 að koma inn til löndunar
Fjölveiðiskip Samherja, Baldvin Þorsteinsson EA og Vilhelm Þorsteinsson EA, hafa verið að frysta loðnu fyrir Rússlands- og Austur-Evrópumarkað. Skipin hafa aflað vel og hefur frystingin gengið vonum framar. Nú hafa þessi tvö skip þegar fryst sem nemur 6.500 tonnum af loðnu.

Það sem af er vetrarvertíð hefur Baldvin Þorsteinsson veitt 4.200 tonn af loðnu og af þeim afla hafa um 3.400 tonn farið í frystingu um borð, eða liðlega 80%.  Baldvin hóf að frysta loðnu þann 10. janúar s.l. og hefur því verið að í liðlega fjórar vikur, utan þess tíma sem loðnuveiðar voru stöðvaðar tímabilið 15. til 20. janúar s.l.  Afli Vilhelms Þorsteinssonar er einnig kominn í um 4.200 tonn á vertíðinni.  Áhöfn Vilhelms hefur veitt, unnið og landað um 3.100 tonnum af frystum afurðum auk afla til bræðslu, á þremur vikum, en skipið hóf loðnufrystingu þann 22.janúar síðastliðinn.  Það samsvarar því að fryst hafi verið um 150 tonn á sólarhring að meðaltali, þennan tíma.  Samanlagður afli skipanna er því orðinn um 8.400 tonn og þar af hafa verið fryst 6.500 tonn, eða nálægt 80% aflans. Hefur allur aflinn verið veiddur í troll.

 

ea11_fullfermi_heimas.
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 með fullfermi
(mynd tekin af Kristjáni Þ.Jónssyni skipherra á Ægi)
 

Að sögn Hákons Þrastar Guðmundssonar, skipstjóra á Baldvin Þorsteinssyni EA, hafa veiðarnar gengið vel og frystingin einnig. “Loðnan hefur hentað ágætlega til frystingar á þann markað sem nú er verið að frysta fyrir. Hrognafyllingin hefur nú náð um 12,6% og er því að verða nægileg fyrir frystingu á Japansmarkað. Það má því búast við að við hefjum innan skamms frystingu fyrir þann markað,” segir Hákon Þröstur.