Það sem af er vetrarvertíð hefur Baldvin Þorsteinsson veitt 4.200 tonn af loðnu og af þeim afla hafa um 3.400 tonn farið í frystingu um borð, eða liðlega 80%. Baldvin hóf að frysta loðnu þann 10. janúar s.l. og hefur því verið að í liðlega fjórar vikur, utan þess tíma sem loðnuveiðar voru stöðvaðar tímabilið 15. til 20. janúar s.l. Afli Vilhelms Þorsteinssonar er einnig kominn í um 4.200 tonn á vertíðinni. Áhöfn Vilhelms hefur veitt, unnið og landað um 3.100 tonnum af frystum afurðum auk afla til bræðslu, á þremur vikum, en skipið hóf loðnufrystingu þann 22.janúar síðastliðinn. Það samsvarar því að fryst hafi verið um 150 tonn á sólarhring að meðaltali, þennan tíma. Samanlagður afli skipanna er því orðinn um 8.400 tonn og þar af hafa verið fryst 6.500 tonn, eða nálægt 80% aflans. Hefur allur aflinn verið veiddur í troll.
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 með fullfermi (mynd tekin af Kristjáni Þ.Jónssyni skipherra á Ægi) |
Að sögn Hákons Þrastar Guðmundssonar, skipstjóra á Baldvin Þorsteinssyni EA, hafa veiðarnar gengið vel og frystingin einnig. “Loðnan hefur hentað ágætlega til frystingar á þann markað sem nú er verið að frysta fyrir. Hrognafyllingin hefur nú náð um 12,6% og er því að verða nægileg fyrir frystingu á Japansmarkað. Það má því búast við að við hefjum innan skamms frystingu fyrir þann markað,” segir Hákon Þröstur.