Yfirlýsing frá Garðari Gíslasyni lögmanni Samherja vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins:
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var rætt við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í tilefni af nýgengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Með dóminum var endir bundinn á tæplega sjö ára samfelldan málarekstur bankans gegn félaginu.
Í aðdraganda viðtalsins við forsætisráðherra var því ranglega haldið fram af hálfu fréttamanns að niðurfelling sérstaks saksóknara á kæru Seðlabanka Íslands í síðara sinnið hefði byggt á því að skort hefði á samþykki ráðherra á reglum bankans um gjaldeyrismál.
Í viðtalinu lét forsætisráðherra þau orð falla í viðtalinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir Seðlabankann“ sem tapað hafi málinu „fyrst og fremst vegna formsatriða“. Sú niðurstaða eigi hins vegar að mati ráðherrans ekki að hafa áhrif á stöðu seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi verið ásetningur að baki brotum í málarekstri Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja hf.
Af þessu tilefni er ástæða til að benda á að endurteknar ávirðingar Seðlabanka Íslands á hendur félögum í samstæðu Samherja hf. og helstu fyrirsvarsmanna þeirra sættu efnislegri rannsókn af hálfu embættis sérstaks saksóknara, sem m.a. komst að þeirri niðurstöðu að Samherji hf. hefði gætt þess af kostgæfni að senda heim erlendan gjaldeyri sem var endurgjald félagsins vegna sölu á vöru og þjónustu.
Þá er sömuleiðis ástæða til að vekja á því sérstaka athygli að í dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem Hæstiréttur Íslands staðfesti með vísan til forsendna hans 8. nóvember sl., kemur skýrt fram að það var ekki bara forminu sem var áfátt í málsmeðferð Seðlabanka Íslands, enda þótt dómurinn felldi „þegar af þessari ástæðu“ niður stjórnvaldssekt bankans á hendur Samherja hf.
Yfirlýsingin hér fyrir ofan var send til RÚV en var ekki birt í heild sinni