Mannabreytingar í söludeild Samherja

Allnokkrar breytingar hafa orðið á mannahaldi í söludeild Samherja í kjölfar aukinna umsvifa að undanförnu.

Birgir Össurarson, sem gegndi starfi sölu- og markaðsstjóra Samherja, hefur flutt sig um set og hóf störf hjá Seagold, dótturfyrirtæki Samherja í Hull, í apríl s.l. en umsvif þess fyrirtækis hafa aukist jafnt og þétt á liðnum misserum.
Ennfremur hefur Hildur Arnardóttir starfsmaður í söludeild látið af störfum en hún er flutt búferlum til Þýskalands. Þá mun Þorbjörg Ingvadóttir (Obba) halda til náms í Englandi með haustinu. Er Hildi og Obbu þökkuð vel unnin störf hjá félaginu og þeim óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

En sem betur fer kemur maður í manns stað. Hlynur Veigarsson matvælafræðingur, sem starfað hefur hjá félaginu við gæðaeftirlit undanfarin ár hefur tekið við sölumannsstarfi og mun lax og laxaafurðir vera á hans sviði. Þá hóf Fjóla Stefánsdóttir nýútskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri störf í söludeild í júníbyrjun auk þess sem Unnar Jónsson, sem starfað hefur undanfarin ár hjá Hussmann og Hahn og áður DFFU, mun snúa til baka í söludeild og kemur til starfa um miðjan ágúst.