Verið er að mála uppsjávarskipið Margréti EA 710 í litum Samherja. Skipið hefur undanfarnar vikur verið í Skagen í Danmörku, þar sem unnið hefur verið að endurbótum auk lögbundinna skoðana.
Margrét, sem áður hét Christina S, bættist í flota Samherja í mars á þessu ári. Skipið var smíðað í Noregi árið 2008 og er 72 metra langt og 15 metra breitt.
Margrét er vel búið skip á allan hátt og aðalvélin hefur aðeins verið keyrð í um 17.000 klukkustundir. Þrettán kælitankar eru í skipinu og taka þeir samtals liðlega tvö þúsund rúmmetra.
Gott skip
Hjörtur Valsson skipstjóri segir að Margrét fari fljótlega á veiðar.
„Vinnunni hérna í Skagen fer senn að ljúka, þannig að það styttist í veiðiferð hjá okkur. Það er bara frábært að búið sé að mála skipið í litum Samherja, það var reyndar með rauðan skrokk en persónulegra finnst mér þessi dökkrauði litur Samherja fallegri. Ljósi liturinn tónar líka einstaklega vel við dökkrauða litinn.
Margrét er gott skip, það fer vel um mannskapinn og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Tækjabúnaðurinn er sömuleiðis góður og vélin kraftmikil. Það er greinilegt að fyrri eigendur hugsuðu vel um skipið og Samherji hefur alla tíð hugsað vel um sín skip eins og við vitum,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Margréti EA 710.