Margrét á ísfiskveiðum

Margrét EA-710
Margrét EA-710

Um þessar mundir eru fjögur af skipum Samherja á ísfiskveiðum, sem er meira en oft áður. Þetta eru Björgúlfur EA, Kambaröst SU, Hjalteyrin EA og Margrét EA. Athygli kann að vekja að sjá Margréti í þessum hópi þar sem hún er útbúin sem frystiskip. Með aukinni árherslu Samherja á landvinnslu er nauðsynlegt að treysta hráefnisöflunina og því var ákveðið að gera togarann út á ísfiskveiðar um sinn.

Skipin fjögur afla hráefnis fyrir frystihús Samherja í Dalvíkurbyggð og á Stöðvarfirði. Einnig hefur verið tekið upp samstarf við Fiskiðjusamlag Húsavíkur þar sem Samherji sér um að veiða upp í fiskveiðiheimildir Fiskiðjusamlagsins og er aflanum landað á Húsavík. Auk þess má nefna að Samherjaskipin hafa verið að veiða fyrir Síldarvinnsluna í Neskaupstað eftir að togarinn Bjartur skemmdist í eldi. Af þessu má sjá að vel þarf að halda á spöðunum svo að allir í landi hafi nóg að starfa.

Mikið öðruvísi

Willard Helgason, skipstjóri á Margréti, var léttur í máli þegar haft var samband við hann í gær en þá var hann staddur með skipið úti fyrir Norðurlandi. „Þetta er nú bara önnur vikan hjá okkur þannig að við erum svona rétt að ná áttum í þessum veiðiskap," sagði Willard. Hann telst þó varla neinn nýgræðingur í sjómennskunni og hefur verið á ýmsum skipum Samherja í rúman áratug. „Því er ekki að neita að þetta er mikið öðruvísi en að vera á frystitogara. Núna erum við vikulega inni í stað allt að 35 daga útiveru áður. Það hefur auðvitað sína kosti en samt finnst manni þetta vera meira kapphlaup við tímann. Annars er Margrét svo gott skip og fer svo vel með mann að það er alltaf gaman að vera á henni," sagði Willard að lokum.