Þær aðstæður sem nú ríkja vegna Covid-19 eiga sér vart hliðstæðu og hafa á einn eða annan hátt haft áhrif á öll fyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Samherji hefur gripið til margþættra aðgerða til að fyrirbyggja smit og innleitt öryggisáætlanir um rétt viðbrögð ef smit kæmi upp meðal starfsmanna.
„Samherji leggur mikla áherslu á að tryggja öryggi allra starfsmanna sem og viðskiptavina sinna en eitt af meginmarkmiðum Samherja er að gera fyrirtækið að öruggum og slysalausum vinnustað. Af þessari ástæðu tókum við mögulega útbreiðslu Covid-19 alvarlega frá fyrsta degi og gripum til sérstakra ráðstafana. Með því vildi Samherji leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar og gera allt til að koma í veg fyrir smit í starfsstöðum fyrirtækisins,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Áður en fyrsta Covid-19 smitið greindist hér á landi lét Samherji útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk um smitleiðir og varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja smit. Þar var um að ræða upplýsingaskilti um mikilvægi handþvotta og sótthreinsunar, upplýsingar um smitleiðir og leiðir til að draga úr smithættu. Þessi skilti voru hengd upp á salernum, í mötuneytum, á skrifstofum og víðar í fyrirtækinu. Efnið var unnið á grundvelli upplýsinga frá almannavörnum og landlækni. Samtímis var skömmturum með handspritti fjölgað á starfsstöðvum og litlum brúsum með handspritti dreift til starfsmanna.
Ákveðið var að takmarka allar viðskiptaferðir og starfsmenn hvattir til að fara ekki í ónauðsynlegar utanlandsferðir. Þá voru allar heimsóknir í starfsstöðvar Samherja bannaðar um óákveðinn tíma. Samhliða þessu voru innleiddar sértakar þrifareglur sem gilda í öllum starfsstöðvum Samherja. Þær kveða á um að allir snertifletir séu þrifnir með 40 gráðu heitu sápuvatni og sótthreinsaðir að minnsta kosti tvisvar á dag. Hér er um að ræða alla hurðarhúna, öll handrið og alla snertifleti á salernum, kaffistofu og öðrum vistarverum starfsmanna. Það sama gildir um tölvumýs, lyklaborð og arma á stólum í skrifstofurýmum.
Innleiddar voru sérstakar þrifareglur í öllum skipum í útgerðarflota Samherja. Þær kveða á um þrif og sótthreinsun allra snertiflata að minnsta kosti tvisvar á dag. Þá er engum heimilt að koma inn í borðsal og setustofu skips nema hafa þvegið og sótthreinsað hendur áður. Voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að tryggja að þetta verklag væri virt.
Innleidd var neyðar- og viðbragðsáætlun fyrir áhafnir skipa þar sem stuðst var við efni frá almannavörnum. Þá voru sett upp upplýsingaskilti um heimsóknarbann við landganga skipa.
Samgangur starfsmanna milli rekstrareininga hefur verið takmarkaður eins mikið og frekast er unnt. Þá hefur hópum verið skipt upp í skrifstofurýmum og vinnur hluti starfsmanna nú heima. Ákveðið var að starfsmenn í mötuneytum myndu skammta mat og afhenda áhöld til starfsmanna þar sem því var hægt að koma við.
Samherji vinnur áfram að áhættumati fyrir starfstöðvar í landi. Þá er unnið að því að virkja neyðar- og viðbragðsáætlun fyrir landvinnslur. Öryggisstjóri Samherja og samstarfsmenn hans hafa fundað með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og öryggisstjórum annarra aðildarfyrirtækja samtakanna um stöðuna.
„Blessunarlega hefur ekkert smit komið upp í starfsstöðvum Samherja ennþá. Ég vil þakka starfsfólki Samherja alvega sérstaklega fyrir að taka á þessu máli af festu og ábyrgð og sýna þessum ráðstöfunum skilning,“ segir Björgólfur Jóhannsson.