Markaðir fyrir ferskar sjávarafurðir hafa snarbreyst á aðeins tveimur vikum og útflutningur á ferskum fiski er aðeins um fjórðungur af því sem hann var áður en Covid-19 faraldurinn hófst. Þá er óvissa um hvernig markaðir munu þróast á næstunni. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, sendi áhöfnum á skipum í útgerðarflota fyrirtækisins á dögunum. Kristján hvetur sjómenn til dáða í bréfinu og segir að Samherji hafi alltaf getað treyst á sjómenn að skila sínu óháð aðstæðum. Hann fer einnig yfir þau margþættu áhrif sem faraldurinn hefur haft á rekstur Samherja og hvernig starfsfólk hefur aðlagað sig að breytingum sem ráðist hefur verið í vegna krafna um sóttvarnir.
Bréf Kristjáns er hér fyrir neðan.
Bréf til sjómanna á skipum Samherja
Tíminn sem nú fer í hönd er eitthvað sem aldrei hefur sést fyrr og langt frá því sem við höfum nokkurn tíma ímyndað okkur að gæti gerst. Við getum bara vonað að þessu ljúki sem fyrst.
Það er samfélagsleg skylda allra að gera hvað sem er til að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar og við höfum ekki önnur ráð en við fáum frá yfirvöldum, sóttvarnarlækni og almannavörnum. Þessi embætti hafa gefið leiðbeiningar hvernig við best getum gert varðandi hreinlæti og mannamót kölluð „samkomubann“ þar sem leitast er við að minnka þá hópa fólks sem koma saman og fækka smitleiðum. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á netinu t.d. á: www.covid.is
Á sama tíma verður lífið að halda áfram og mjög mikilvægt að starfsemi sem flestra fyrirtækja haldi áfram allra hluta vegna. Eigendur og yfirmenn Samherja hafa reynt í einu og öllu að fara eftir fyrirmælum almannavarna og hefur starfsemi fiskvinnslunnar verið umturnað þess vegna. Með fjölmörgum nýjum umgengnisreglum, með auknum þrifum, með aðskilnaði starfsfólks, með heimsóknarbanni, með vali og lágmörkun á viðgerðum/viðhaldi, með algerri uppstokkun í mötuneyti, með mismunandi komu- og brottfarartíma á vinnustað, með tilmælum um ferðir til og frá vinnu, með tilmælum um lífsstíl og hegðun utan vinnutíma og með uppsetningu veggja í vinnslusölum til að minnka nálægð.
Nú í vikunni var gengið enn lengra í ÚA og Dalvík og starfsemin minnkuð um því sem næst helming með því að einungis 50% starfsfólks vinnur á sama tíma og vinna starfsmenn annan hvern dag. Allt er þetta gert eftir þeim reglum sem settar hafa verið og tilgangurinn er að minnka líkur á að smit berist á milli fólks og að starfsmenn geti sinnt vinnu í sem mestu öryggi.
Skip er vinnustaður með mikla nánd manna, þess vegna þarf að hugsa þar ráð sem best geta dugað. Í sjálfu sér er ekki smithætta úti á sjó svo lengi sem enginn er smitaður. Meðal annars þess vegna, og vegna þess sem á undan er sagt kom sú hugmynd að áhöfn hvers skips væri í raun í einskonar einangrun um borð eins lengi og fært er og þannig minnka líkur á smiti. Hversu langur sá tími verður er alveg undir áhöfn komið, þetta er ný hugmynd sem kom upp sem tilraun í baráttunni og virðist í raun vera nokkuð skynsöm. Okkur er ljóst að þetta er ekki auðvelt fyrir marga og kannski sérstaklega vegna þess að það er ekki hefð fyrir að taka marga túra í röð án þess að fara í land á milli. Með þessu teljum við auknar líkur á að takist að halda skipunum lengur inni í rekstrinum og þar með tekjum ykkar.
Markaðirnir okkar hafa snarbreyst á tveimur vikum og það sést alls ekki fyrir um áframhaldandi breytingar, en þær munu því miður gerast. Að sama skapi hefur þurft að gera breytingar á vinnslunni. Ferski útflutningurinn hefur minnkað niður í allt að 25% af því sem hann var áður og alger óvissa er um næstu vikur. Það er eins með magnið, það sveiflast og þess vegna er oft erfitt að ákveða fyrirfram hversu mikið við getum fiskað. Þar kemur að ykkar þætti og þið hafið alltaf sýnt að á ykkur má treysta í keðjunni.
Markmið fyrirtækisins er að gera það sem hægt er til að halda starfsfólki frá smiti en á sama tíma að fólkið haldi vinnu. Það er einungis hægt með samstilltu framtaki hvers og eins. Þannig trúum við að best verði að koma aftur í venjulegan rekstur þegar fárinu lýkur og að enginn viðskiptavinur erlendis hafi gleymt okkur.
Með bestu kveðjum,
Kristján Vilhelmsson