Björn Már Björnsson, stýrimaður á uppsjávarskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 hefur þrátt fyrir ungan aldur upplifað í þrígang að vera í fyrstu áhöfn á nýju fiskiskipi. Viðtal við Björn Má birtist í blaðinu Sóknarfæri og er hér birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra blaðsins.
„Ég er mjög þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið í sjómennskunni og ekki síst að hafa fengið að starfa hlið nokkurra reyndustu og bestu skipstjórnenda flotans. Það er dýrmætt að fá að læra af þessum mönnum og sjá hvernig topp skipstjórar nálgast hlutina og verkefnin, hver á sinn hátt,“ segir Björn Már Björnsson, 1. stýrimaður á uppsjávarskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA.
Björn Már er fæddur og uppalinn Dalvíkingur, lærður smiður sem missti starfið í hruninu og fór þá að vinna í löndun í heimabænum. Fljótlega bauðst tækifæri til að fara túr á togara, svo kom næsta sjómennskutilboð og svo koll af kolli. Ekki varð aftur snúið og innan fárra ára var Björn Már kominn í Stýrimannaskólann og búinn að setja sér skýr markmið í sjómennskunni.
Löndunarkall og togarasjómaðurtil skiptis
Fyrsta túrinn fór Björn Már á ísfisktogaranum Björgvin EA á og heillaðist strax af sjómennskunni. Síðar bauðst honum svo að fara túra á togurunum Björgúlfi EA á Dalvík og Baldvin NC en þá var skipið að fiska þorsk við Grænland og landa hér heima.
„Ég fékk frí í lönduninni gegn því að ég tæki þátt í að landa úr skipinu og þetta gerði ég nokkra túra í röð, landaði með strákunum og fór svo með skipinu út aftur. Ég fékk svo aftur tækifæri að fara í túra á Björgúlfi en sumarið 2012 fékk ég svo boð um að fara á Árbak EA. Þetta haust er eftirminnilegt öllum sem voru á Árbak því við mokveiddum og í minningunni er þetta haust ein samfelld gleði hjá okkur í áhöfninni. Kaflinn á Árbak er hið eiginlega upphaf mitt í sjómennskunni en það var svo strax í ársbyrjun 2013 sem Guðmundur Ingvar skipstjóri spurði mig hvort ég vildi ekki stíga skrefið til fulls og drífa mig í Stýrimannaskólann. Þarna var ég alveg að drepast úr áhuga á sjómennskunni og eitthvað hafa skipstjórnendurnir séð í mér því í skólann var ég kominn strax eftir fyrsta túr á árinu 2013. Allt gerðist þetta því frekar hratt,“ segir Björn.
Besta ákvörðun lífsins að láta áfengi lönd og leið
Björn var á námsamningi hjá Samherja meðan á stýrimannsnáminu stóð og var á togaranum Björgvin EA á sumrin og fór líka í túra í skólafríum um jól og páska. Hann útskrifaðist úr náminu vorið 2016.
„Árið 2015 tók ég vafalítið mína stærstu ákvörðun í lífinu hingað til þegar ég hætti að neyta áfengis. Ég segi við hvern sem er og hvar sem er að öl er böl, svo einfalt er það. Frá þessum tímapunkti hef ég alltaf verið við stýrið, ef svo má segja, í eigin hugsunum og gjörðum og hef síðan þá fengið frábær atvinnutækifæri sem ég tengi ekki síst við þessa ákvörðun,“ segir Björn Már en strax eftir skólann fór hann túr sem 2. stýrimaður á Björgvin EA , fór svo einn mánuð togarann Baldvin NC og í beinu framhaldi var hann sendur til Máritaníu til að sigla heim með vinnsluskipinu Kristina sem kom hingað til að veiða makríl þetta sumar.
„Þar var ég skyndilega kominn í brúna á heimleiðinni með Birni Val Gíslasyni og Arngrími Bryjólfssyni, þrautreyndum skipstjórum. Mér fannst ég bara vera eins og algjör rindill við hliðina á þessum stórstjörnum,“ segir Björn Már hlæjandi.
Frá Palmas á Kanaríeyjum sigldu þeir félagar til Hafnarfjarðar þar sem skipið var gert klárt á makríl.
„Ég tók svo alla makrílvertíðina um sumarið á Kristina, tók einn mánuð inn í milli á frystingu á Snæfellinu en lauk svo makrílnum í október á Kristina. Þarna hafði ég verið nokkuð yfir 100 daga á sjó með mjög stuttum stoppum milli skipa!“
Ósigrandi Kaldbaksmenn!
Við tók sjómannaverkfall í upphafi árs 2017 en á þessum tímapunkti bauðst Birni Má staða 2. stýrimanns á nýju ferskfiskskipi Samherja sem þarna var í smíðum, Kaldbak EA. Skipið kom til landsins í mars 2017.
„Ég kannaðist við flesta karlana á Kaldbak því þeir höfðu róið með föðurbræðrum mínum. Það var mikill spenningur fyrir þessum nýju skipum og ég var mjög stoltur af því að hafa fengið þetta atvinnutilboð og tækifæri. Í brúnni á Kaldbak voru frábærir skipstjórar, Angantýr Arnar Árnason og Sigtryggur Gíslason. Þeir voru ósparir að leiðbeina, setja á mann ábyrgð en ég lærði líka af þeim mikilvægi þess að deila ábyrgð og ætla ekki að gera hlutina einn og sér og sjálfur. Ég á þessum tveimur mönnum mikið að þakka og á Kaldbak fékk ég fyrsta tækifærið sem 1. stýrimaður, nokkuð sem ég hafði sett mér við lok Stýrimannaskólans að ná innan fimm ára. Það gerðist hins vegar innan þriggja ára á Kaldbak.
Þessi áhöfn á Kaldbak var alveg stórkostleg og mér fannst við einhvern veginn algjörlega ósigrandi. Arnar og Bóbó voru hershöðingjar og við hinir í áhöfninni stríðsmennirnir! Samheldnin í allri áhöfninni var mikil og skilaði sér í því að við urðum strax aflahæstir í togaraflotanum.“
Fyrirvaralaust í skipstjórastólinn
Eftir slétt þrjú ár á Kaldbak bauðst Birni Má enn að skipta um starfsvettvang og fara í þetta sinn í stöðu 1. stýrimanns á togaranum Smáey VE í Vestmannaeyjum sem Samherji tók á leigu um tíma.
„Þar hitti ég fyrir Hjört Valsson skipstjóra sem ég þekkti vel frá fyrri árum hjá Samherja. En svo fór það þannig að innan mjög skamms tíma fór hann annað og ég var settur í skipstjórastólinn eiginlega fyrirvaralaust. Þetta var mikill reynslutími því þarna var Covid að byrja, ég þurfti að takast á við það skipulag og hugsanlegt smit um borð og alls kyns mál, t.d. að segja upp manni í áhöfn sem aldrei er auðvelt fyrir skipstjóra að gera. Þetta var því mikil eldskírn fyrir mann sem ekki hafði verið lengur en þetta í yfirmannsstöðu á fiskiskipi,“ segir Björn Már en eftir tímann á Smáey varð hann skipstjóri á móti Hirti Valssyni á nýjum Harðbak EA þegar það skip kom til Samherja vorið 2019.
„Það var svo ári síðar sem mér bauðst að fara á uppsjávarskipið Vilhelm Þorsteinsson EA þegar það kom nýtt vorið 2020 og þetta var í þriðja skiptið sem ég var í fyrstu áhöfn á nýju fiskiskipi. Slíkt er alltaf upplifun fyrir sjómenn og eitt af því sem ég er þakklátur fyrir á ferlinum.“
Lærir í brúnni af þeim bestu í bransanum
Á Vilhelm Þorsteinsson fór Björn Már sem 2. stýrimaður og hlutverkið var þar af leiðandi ekki að vera í brú heldur stjórnandi á dekki. Það hlutverk þekkti hann mætavel frá fyrri árum en segir að margir hafi undrast þessa ákvörðun hans.
„Ég veit að mörgum þótti þetta skrýtið og að ég væri að setja mig niður í metorðastiganum með þessu eftir að hafa verið bæði 1. stýrimaður og skipstjóri. En staðreyndin var sú að þarna réði þessi ódrepandi sjómennskuáhugi minn ferðinni. Fram að þessu hafði ég bara verið á togveiðum en þekkti ekkert til nótaveiða. Ég gat bara ekki sleppt því tækifæri að komast á þetta stóra og mikla uppsjávarskip þegar það bauðst og var í rauninni ekkert að velta því fyrir mér þó að mitt hlutverk yrði niðri á dekki,“ segir Björn Már.
Eftir þrjú ár á Vilhelm var hann þó kominn í hlutverk 1. stýrimanns og vinnur þar við hlið skipstjóranna Guðmundar Þ. Jónssonar og Birkis Hreinssonar.
„Það er á engan hallað þó ég segi að áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni er sú besta sem ég hef verið í. Guðmundur og Birkir eru einstakir fagmenn og miklir aflaskipstjórar báðir tveir. Ég á varla nægilega sterk orð til að lýsa kostum þessara manna sem stjórnendum og nýt því hvers dags í starfinu og er alltaf að læra. Eitt af þeim markmiðum sem ég setti mér og náði með því að fara á Vilhelm var að fá að upplifa loðnuveiðar með nót sem svo sannarlega er eitthvað sem ég hefði ekki viljað missa af. Flottrollsveiðarnar eru líka stórskemmtilegar en ég var svo spenntur þegar við tókum fyrsta loðnukastið að ég fór niður á dekk bara til að finna þessa sterku loðnulykt sem allir tala um. Og á þessum fáu árum höfum við fengið bæði bestu loðnuvertíðina í langan tíma og líka þá lökustu og loðnubrest nú í vetur.“
Óbilandi sjómennskuáhugi
Björn Már fer ekki dult með að brennandi áhugi á sjómennsku hafi gripið hann á sínum tíma og að þannig sé honum innanbrjósts enn þann dag í dag.
„Það var nú reyndar orðið þannig á tímabili í byrjun sjómennskunnar að ég réri svo grimmt og var svo ofboðslega áhugasamur um sjómennskuna og allt sem þessu viðkom að nánasta fjölskylda mín var farin að hafa verulegar áhyggjur af því að ég væri hreinlega að spóla yfir mig en ég setti mér fljótlega markmið í þessu og hef verið svo lánsamur að margt af því hefur ræst,“ segir Björn Már og neitar því ekki aðspurður að hann hafi metnað til að vera í skipstjórn í framtíðinni.
„Ég er alveg rólegur hvað það varðar og finnst ég vera á besta stað í sjómennskunni í dag. Auðvitað er þetta ekki alltaf tóm sæla, jafnvel þó skipið sé stórt og vel búið. Stundum reyndar bara ferlega mikið bras. En í heild sinni gaman og það skiptir öllu máli,“ segir hann og hugsar sig augnablik um svarið við þeirri lokaspurningu hvort hann hafi trú á því að hann komi til með að hafa enn jafn gaman af starfinu eftir þrjátíu ár, þá kominn á sjötugsaldur. „Já, veistu að í fullri einlægni sagt þá held ég að það verði þannig.“