Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, heimsótti fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa og kynnti sér starfsemina. Ásthildur segir mjög áhugavert að fylgjast með allri hátækninni í íslenskum sjávarútvegi, meðal annars í fiskvinnsluhúsi ÚA.
Sjávarútvegur hornsteinn atvinnulífsins á Akureyri
Meðan á heimsókninni stóð voru mörg mál rædd eins og hafnarmál í firðinum, skipulagsmál, áhrif og afleiðingar skertra veiðiheimilda á starfsemi ÚA. Allt mál sem snúa bæði að starfsemi ÚA og sveitarfélaginu.
Starfsmenn ÚA eru liðlega 200, þar af 150 til 160 í landvinnslu félagsins. Ásthildur segir að sjávarútvegur sé einn af hornsteinum atvinnulífs sveitarfélagsins og samlegðin mikil m.t.t. þjónustu fjölmargra fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu.
„Útgerðarfélag Akureyringa, sem er einn af stærstu vinnustöðum í sveitarfélaginu, er samofin sögu bæjarins og hefur mikla þýðingu fyrir okkur,“ segir Ásthildur.“
Erum í fremstu röð
Ásthildur skoðaði vinnsluna en á bilinu 70 til 100 tonn eru unnin daglega í fiskvinnsluhúsi ÚA. „Hátæknin er mikil og sérstaklega gaman að sjá að tæknibúnaðurinn er að mestu íslenskur. Fiskvinnsluhús ÚA er afar tæknivætt og greinilegt að störf í fiskvinnslu hafa tekið miklum breytingum og krefjast sérfræðiþekkingar, sem við höfum tileinkað okkur og erum í fremstu röð. Við megum vera stolt af því hversu framarlega við Íslendingar stöndum í vinnslu sjávarafurða á heimsvísu.“