Met í rækjuvinnslunni

Rækjuvinnsla Samherja á Akureyri
Rækjuvinnsla Samherja á Akureyri

Rækjuvinnsla Samherja á Akureyri hefur gengið mjög vel á árinu. Í liðinni viku höfðu verið framleidd 2.900 tonn frá áramótum sem er jafn mikið og félagið hefur áður framleitt á heilu ári. Ljóst er að framleiðsla yfirstandandi árs verður vel yfir 3.000 tonn. Þetta er enn athyglisverðara í ljósi þess að nú rekur félagið eina rækjuverksmiðju en þegar gamla metið var sett, árið 1995, voru verksmiðjurnar tvær.

 

Þennan góða árangur má rekja til gagngerðra breytinga sem gerðar voru á rækjuverksmiðjunni á síðasta ári en framleiðslulínan var þá endurnýjuð nánast frá grunni. Í kjölfarið jukust afköstin um 70% án þess að fjölga þyrfti starfsfólki. „Við erum mjög ánægð með árangurinn enda hafa þau markmið sem sett voru við endurnýjun verksmiðjunnar náðst og rúmlega það" segir Gestur Geirsson, framleiðslustjóri. Um 90 manns starfa í verksmiðjunni á Akureyri, sem í daglegu tali er nefnd Strýta, og þar af um rúmlega helmingur við rækjuvinnsluna.

Bjartara framundan

Nokkur lægð var í rækjuvinnslu á síðasta ári en nú vonast menn eftir að betri tíð sé í vændum. „Rækjuafli á Íslandsmiðum hefur verið mjög lélegur undanfarin misseri og þar af leiðandi hafa um tveir þriðju hlutar hráefnis okkar komið annarsstaðar að, bæði frá dótturfélögum Samherja í Skotlandi og Þýskalandi og einnig höfum við keypt hráefni frá Noregi og Kanada. Afurðaverðið hefur einnig verið með því lægsta sem þekkist en gengisþróun íslensku krónunnar hefur þar komið okkur til góða, eins og öðrum sem standa í útflutningi. Ég horfi hins vegar með nokkurri bjartsýni til næsta árs því rækjuveiði á Íslandsmiðum hefur verið að glæðast og eins vonumst við eftir hækkandi afurðaverði í kjölfar minni framleiðslu bæði í Noregi og Kanada." segir Gestur.