Aflaverðmætið nam 526 milljónum króna á árinu 2003, sem er hugsanlega mesta aflaverðmæti íslensks ísfisktogara á einu ári
Ísfiskskipið Björgúlfur EA 312 veiddi alls 5.000 tonn á árinu 2003 og nam aflaverðmætið rúmum 526 milljónum króna (FOB-verðmæti). Þetta er mesti afli sem skipið hefur komið með að landi á einu ári og má telja að hér sé um að ræða mesta aflaverðmæti sem íslenskur ísfisktogari hefur skapað á einu og sama árinu.
Afli skipsins var að langstærstum hluta þorskur, eða um 3.600 tonn. Þá veiddi skipið um 650 tonn af ýsu, 350 tonn af ufsa, rúm 200 tonn af karfa og samtals um 200 tonn af öðrum tegundum. Aflinn fór nær allur til vinnslu í starfsstöðvum Samherja á Dalvík og Stöðvarfirði.