Möguleg sekt á DNB er ótengd Samherja

Í dag var greint frá því að norski bankinn DNB gæti átt yfir höfði sér sekt frá norska fjármálaeftirlitinu, Finanstilsynet. Samherji hefur engar upplýsingar um þessa mögulegu sekt umfram það sem lesa má í fjölmiðlum en hún hefur verið bendluð við viðskipti Samherja við DNB. Samt er hvergi minnst á Samherja eða tengd fyrirtæki í tilkynningu DNB varðandi sektina og ekkert bendir til þess að hún sé vegna viðskiptasambands DNB og Samherja.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla stafar þessi sekt af aðgerðum norska fjármálaeftirlitsins gegn DNB í tengslum við reglubundið eftirlit gegn peningaþvætti í febrúar á þessu ári. Niðurstaðan af umræddri athugun var að því er virðist sú að almenn kerfi DNB og aðgerðir bankans til varnar peningaþvætti hafi verið ófullnægjandi. Sambærilegar úttektir hafa leitt til sekta hjá öðrum norskum fjármálafyrirtækjum.

DNB segir beinlínis í opinberri yfirlýsingu sinni vegna málsins að norska fjármálaeftirlitið saki bankann ekki um að hafa aðstoðað viðskiptavini við peningaþvætti heldur beinist ásökunin að því bankinn hafi ekki fylgt ítarlegum norskum lagaramma um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Ekki hefur verið haft samband við Samherja í tengslum við þetta mál og þá hefur fyrirtækið ekki verið viðloðandi ferlið á neinn hátt. Engu að síður kýs norska dagblaðið Dagens Næringsliv að bendla Samherja við málið með frétt sem birtist í dag og þannig gefa í skyn að meintar ófullnægjandi peningaþvættisvarnir DNB bankans séu á einhvern hátt tengdar viðskiptum Samherja við bankann. Samherji hefur þegar sent tilkynningu til blaðsins með ósk um leiðréttingu enda er álagning umræddrar sektar ótengd Samherja eins og áður er rakið.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is