Nafnið Baldvin úr skipastóli Samherja

Þau tímamót eiga sér stað í þessari viku að skipið Baldvin NC, sem áður hét Baldvin Þorsteinsson EA, verður afhentur nýjum eigendum. Þar með lýkur 25 ára farsælli sögu skipsins með Baldvins nafninu.

Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA kom til landsins sem fyrsta nýsmíði Samherja fyrir 25 árum, þann 20. nóvember 1992. Skipið var smíðað í Flekkefjord í Noregi, 66 metra langt og 1.500 tonn að stærð. Fyrsti skipstjóri þess var Þorsteinn Vilhelmsson en aðrir skipstjórar í þau 10 ár sem skipið var í eigu Samherja voru Arngrímur Brynjólfsson, Guðmundur Jónsson og Hákon Þröstur Guðmundsson.

Baldvin Þorsteinsson EA var afar farsælt fiskiskip og áhöfn þess sló ýmis aflamet. Árið 1999 var Baldvin EA t.d. fyrst íslenskra fiskiskipa til að ná aflaverðmæti upp á einn milljarð íslenskra króna.

Árið 2001 var skipið selt til Deutsche Fischfang Union (DFFU), dótturfélags Samherja í Þýskalandi, og var afhent í maí 2002. Skipið var nefnt Baldvin NC og hefur verið í rekstri hjá DFFU í rúm 15 ár. Skipstjórar Baldvins NC undanfarin ár voru þeir nafnar Sigurður Kristjánsson og Sigurður Hörður Kristjánsson.

Baldvin NC landaði afla öðru hverju hér á landi. Síðustu verkefni skipsins fyrir DFFU voru tveir góðir túrar á grálúðuveiðar við Austur-Grænland. Skipið hefur verið selt til Póllands og fær nafnið Polonus.

Baldvin_NC100Mikil farsæld hefur fylgt nafninu

„Brotthvarf Baldvins NC markar ákveðin tímamót í sögu Samherja því í fyrsta sinn í 25 ár er ekkert skip í skipastól okkar sem ber Baldvins-nafnið,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Hann segir að markmiðið sé auðvitað að eignast nýtt skip með því nafni eins fljótt og kostur er.

„Nafninu hefur fylgt mikil farsæld öll þessi ár. Ég er líka mjög stoltur af því hversu vel skipið lítur út eftir þessi 25 ár. Það segir sína sögu um það hve áhafnir skipsins hafa verið góðar og jafnframt að vandað var til verka við hönnun og smíði skipsins á sínum tíma,“ segir Þorsteinn Már ennfremur.

Hann sagði vel við hæfi að kveðja skipið í góðu, dæmigerðu Akureyrarveðri, en glampandi sól og 20 stiga hiti var sl. sunnudag þegar starfsmenn Slippsins Akureyri unnu við að mála yfir Baldvins-nafnið á hliðum skipsins og setja nýja nafnið í staðinn.

DFFU fær nýtt skip í flota sinn í lok þessa árs og mun það leysa Baldvin NC af hólmi. Nýja skipið fær nafnið Berlín NC 105.

Baldvin_NC100