Neyðaröndunartæki við hverja koju í skipum Samherja hf.

Samherji hf. hefur keypt neyðaröndunartæki sem áformað er að verði sett við hverja koju í skipum fyrirtækisins. Neyðaröndunartækið, eða “flóttatækið” eins og tækið er einnig nefnt, á ensku "Emergency escape breathing device" skammstafað EEBD, er ætlað til að skipverjar geti forðað sér örugglega út úr vistarverum eða öðrum rýmum ef þau fyllast af reyk. Þau eiga ávallt að vera tiltæk í þar til gerðu “statífi” í seilingarfjarlægð frá kojunum. Einnig verða um borð í skipunum æfingagrímur sem ætlast er til að menn noti sem oftast til að kynnast búnaðinum.

Hvergi hærri öryggisstaðall
Samherji kaupir tækin í samvinnu við aðrar útgerðir í landinu, að frumkvæði LÍÚ. Með þessum kaupum hefur Samherji, ásamt öðrum útgerðum landsins, sett sér staðal um öryggi sem gengur lengra en þekkist annars staðar í heiminum, því þess er einungis krafist að tæki af þessum toga séu staðsett í vélarúmum, kælivélarými o.þ.h.

Tækin, sem eru að gerðinni OCENCO M-20.2 frá Viking, urðu fyrir valinu hjá vinnuhóp sem stofnaður var á síðasta ári á vegum LÍÚ. Umrætt tæki er sérstaklega hannað til notkunar í skipum, og uppfyllir allar kröfur Alþjóða siglingastofnunarinnar til neyðaröndunartækja. Það er sérlega fyrirferðarlítið og létt, vegur einungis 1,4 kg. Tækið endurvinnur súrefni frá öndun og í neyðartilvikum á súrefni að endist í 15-32 mínútur, eftir því hvað notandinn reynir mikið á sig.

Skipstjórnarmönnum er ætlað að koma á skipulagi við þjálfun og æfingar ásamt því að uppfæra þjálfunarhandbók með viðeigandi upplýsingum. Áætlaður endingartími tækisins er 15 ár. Með tækjunum fylgir kynningarefni um meðferð þeirra.