Norðanflug hefur hafið starfsemi

Fyrsta flug Norðanflugs var farið í gær, 3. júní, þ.e. á sjómannadaginn, með 11 tonn af ferskum fiski frá Samherja hf. til Belgíu.
nordanflug_logo

Norðanflug var stofnað til að mæta kröfum markaðarins um reglulega flugflutninga milli Norðurlands og meginlands Evrópu. Stofnendur Norðanflugs eru Samherji, Eimskip og Saga Capital Fjárfestingarbanki sem eru máttarstólpar í atvinnulífi Norðurlands og sjá mikil tækifæri í fraktflugrekstri um Akureyrarflugvöll.

Norðanflug mun fljúga þrisvar í viku milli Akureyrar og Ostend í Belgíu, þ.e. á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum. Ostende flugvöllur byggir afkomu sína að mestu leyti á fraktflugi og er í um klukkutíma fjarlægð frá Brussel. Aviapartner, stærsta flugafgreiðslufyrirtæki Belgíu, sér um afgreiðsluna en fyrirtækið er með fullkomnar kæli- og frystigeymslur ásamt allri annarri fraktflugsþjónustu í 9.500 fermetra vöruhúsi á staðnum. 

nordanflug_0036

nordanflug

Flugvélin sem tekin hefur verið á leigu fyrir flutningana er AN-12 sem á sér langa sögu í fraktflugi og hentar aðstæðum á Akureyri vel með tilliti til skjótrar hleðslu og afhleðslu.

Meginhluti útflutningsins verður ferskur fiskur frá Norðurlandi beint á markað á meginlandi Evrópu og mun fiskurinn að meðaltali koma degi fyrr á markað en með núverandi fyrirkomulagi. Innflutningur verður ýmis flugfrakt.

Mikið hagsmunamál
Forsvarsmenn fyrirtækisins héldu í gær fund þar sem Norðanflug var kynnt og farið var yfir framtíðarplön þess. Þar kom m.a. fram að stefnt væri á að verða leiðandi félag í fraktflutningum frá Íslandi til meginlands Evrópu. Markmiðið væri að bjóða hraða, örugga og samkeppnishæfa flugflutningaþjónustu á hinum ört vaxandi markaði Íslands.

“Með tilkomu Norðanflugs skapast aukið svigrúm fiskútflytjenda og annarra útflytjenda til að koma vöru sinni á markaði á meginlandi Evrópu. Það er mjög mikið hagsmunamál fyrir fiskframleiðendur á Norðurlandi að hafa aðgang að öruggum loftflutningum til meginlands Evrópu. Með því náum við að þjónusta okkar mikilvægustu markaði enn betur en verið hefur og tryggja með því hæsta mögulega verð fyrir afurðir okkar,” sagði Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja hf., m.a. í ávarpi sínu á kynningarfundinum í gær.

Framtíðin
Í framkvæmdaáætlun Norðanflugs segir m.a.: “Við munum sameina hina miklu þörf Norðurlands fyrir fiskútflutning og hið öfluga flutningsnet Eimskips innanlands sem utan til að byggja upp öflugt fraktflugfélag á Norðurlandi.” Eimskip og Norðanflug eru í nánu samstarfi og mun Eimskip á Akureyri sjá um flutning innanlands, til og frá Akureyrarflugvelli.

Norðanflug er með aðsetur í Oddeyrarskála á Akureyri. Nýráðinn framkvæmdastjóri félagsins er Unndór Jónsson en hann starfaði áður á flugrekstrarsviði flugfélagsins Atlanta.