Kaldbakur EA 1 - togari Útgerðarfélags Akureyringa - landaði 110 tonnum á Akureyri í morgun, uppistaða aflans var þorskur eða um 90 tonn. Sigtryggur Gíslason skipstjóri segir að leiðindaveður hafi verið í túrnum, vindurinn yfirleitt yfir tuttugu metrum á sekúndu. Enginn í áhöfn togarans fór frá borði meðan landað var, þannig sé leitast við að koma í veg fyrir COVID-19 smit.
Aflinn eins og lagt var upp með
Kaldbakur var að mestu á veiðum fyrir austan land í þessari veiðiferð. Sigtryggur skipstjóri segir veðrið á miðunum fyrir vestan land hafi einfaldlega rekið marga togara austur.
„Við byrjuðum túrinn á Rifsbankanum en þar var vitlaust veður, þannig að við sigldum austur á Digranesflak. Þar vorum við í brælu svo að segja allan túrinn en aflinn var sæmilegur, eða eins og lagt var upp með í byrjun ferðar. Þorskurinn fyrir austan er ekki eins stór og fyrir vestan á þessum árstíma, sem sagt svokallaður Norðlendingur. Þetta var önnur veiðiferðin frá áramótum sem við sigldum austur, veðrið stýrir okkur einfaldlega, það er bara þannig. Frá áramótum hefur veðrið verið óskaplega umhleypingasamt en veiðin hefur verið þokkaleg.“
Tvöföld áhöfn. Ýtrustu ráðstafanir gegn COVID-19
Byrjað var að landa úr Kaldbak klukkan sex í morgun og um hádegisbil var haldið til veiða á nýjan leik. Til þess að koma í veg fyrir COVID-19 smit fór enginn úr áhöfninni í land.
„Við erum svo að segja með tvöfalda áhöfn og við skiptum á átján til tuttugu daga fresti, sem þýðir að hver áhöfn fer í þrjá túra. Með þessu fyrirkomulagi reynum við að koma í veg fyrir smit, það er eins gott að fara varlega. Strákarnir eru algjörlega með á nótunum í þessum ráðstöfunum, enda lítið annað hægt að gera. Vonandi erum við með hækkandi sól að sjá fyrir endann á þessum blessaða heimsfaraldri,“ segir Sigtryggur Gíslason skipstjóri á Kaldbak EA.